136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[12:35]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Ég fagna því sérstaklega að þetta frumvarp er komið til 2. umr. Ég held að hér sé á ferðinni mál sem skiptir verulega miklu fyrir atvinnulífið í landinu og er einmitt eitt af þeim málum sem við þingmenn eigum að vera að vinna að núna til að ýta undir byggingarframkvæmdir, atvinnu, og skapa tækifæri við þessar erfiðu aðstæður.

Ég vil fyrir mína hönd — og ég veit að ég tala fyrir munn allra sjálfstæðismanna — lýsa því yfir að við styðjum þetta mál mjög eindregið. Það var mikill samhugur í nefndinni og þær breytingartillögur sem efnahags- og skattanefnd gerir við frumvarpið eru einungis til að styrkja málið enn frekar og auka við möguleika aðila í byggingariðnaðinum að skapa sér verkefni.

Það eru mjög erfiðir tímar núna og við þingmenn höfum leitað ýmissa leiða til að örva atvinnulífið. Ýmis mál hafa verið í bígerð eða komið fram sem við munum svo sannarlega styðja en ég held að varðandi þetta tiltekna mál sé farin töluvert einföld leið til að örva atvinnulífið. Ég vona að hæstv. fjármálaráðherra hlutist til um það, eftir samþykkt þessa frumvarps, að málið sé kynnt vel fyrir íbúum landsins vegna þess að nokkuð hefur borið á því að þær aðgerðir sem gripið hefur verið til, hafa ekki náð nógu vel til fólksins. Fólk hefur ekki alveg áttað sig á því hvaða möguleika það hefur að grípa til og auðvelda sér hlutina núna. Ég tek því undir það sem fram kom áðan hjá fyrri ræðumanni að það þarf að kynna málið vel og rækilega, ekki síst þá breytingu sem hv. efnahags- og skattanefnd gerði hvað varðar arkitekta og hönnuði.

Ég finn það á viðtölum við arkitekta og hönnuði almennt að hljóðið er mjög þungt í þeim. Búið er að segja upp mörgu fólki á arkitektastofum og verkefnastaðan er mjög slæm. Það er einmitt á þessum sviðum sem menn finna fyrst fyrir því þegar kreppir að. Strax í haust fóru menn að halda að sér höndum varðandi verkefni og þá var fyrirsjáanlegt að áhrifin mundu koma fram í byggingariðnaðinum nokkru síðar. Þess vegna held ég að það sé mikilvægt fyrir ríkisvaldið við þessar aðstæður að reyna að halda í einhver hönnunarverkefni, reyna að halda í verkefni sem gætu örvað arkitektastofur og verkfræðinga. Þess vegna finnst mér gott og hvet til þess að haldið verði áfram hönnunarvinnu og slíku hvað varðar hátæknisjúkrahúsið. Ég er líka mjög ánægð með náðst hafi næstum þverpólitísk sátt hjá ríki og borg um að halda áfram við tónlistarhúsið. Allt þetta skiptir máli við þær aðstæður sem nú eru.

Ég ætla ekki að tala lengi en mig langaði fyrst og fremst að koma hér upp og lýsa sérstakri ánægju með þetta mál. Ég held að það sé betra fyrir okkur þingmenn að ræða mál af þessum toga en sem önnur mál sem taka upp dagskrá þingsins. En síst vil ég tefja fyrir þingstörfum með því að tala lengi um þetta, ég vil miklu frekar að þetta mál geti orðið sem fyrst að lögum. Ég heyri að það eru ákveðin sjónarmið uppi um að útvíkka þetta enn frekar, taka til verkefnis þar sem unnið er á verkstæðum vegna þess að við vitum að margt af því sem var unnið áður á byggingarstað er nú komið inn á verkstæði og er hagræði að því fyrir iðnaðarmenn. Ég skal ekkert um það segja hvort það er vont að gera þá breytingu núna. Ef það verður til þess að tefja málið vil ég frekar að það fari í gegn eins og það er og menn skoði þá í framhaldinu hvort hægt sé að gera frekari breytingar. Ef menn halda að þessi útvíkkun hafi áhrif á samkeppnissjónarmið eða að menn brjóti með henni reglur Evrópska efnahagssvæðisins — vegna þess að ég get ekki tekið undir með hv. þm. Jóni Bjarnasyni að „þeir vitlausu samningar“ skipti ekki máli við þessar aðstæður.

Ég held að við verðum að fylgja þeim leikreglum sem gilda í landinu. Ef það er vilji til þess að útvíkka þetta, hvet ég menn til þess að athuga það sérstaklega en ekki draga þetta mál úr hófi með slíkri athugun. Efnahags- og skattanefnd gæti svo auðveldlega tekið það mál upp sjálf og skoðað hvort slíkt sé á ferðinni. Ég vil að þetta mál verði afgreitt eins fljótt og hægt er og síðan geta menn leitað annarra leiða. Ég hef spurt um það í umræðunni hvort fleiri mál séu í bígerð. Það er augljóst að menn eru að reyna að gera allt sem hægt er til að liðka til þarna og ég vonast til þess að við sjáum fleiri mál af þessum toga. Ég vil enn og aftur lýsa ánægju minni með þetta mál og vona að það verði afgreitt í þinginu fljótt og vel.