136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[12:48]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég ætla fyrst að gera athugasemd við ræðutímann. Ég tel að sem framsögumaður nefndarálits eigi ég fimmtán mínútna ræðutíma í annað sinn og af tæknilegum ástæðum voru teknar af mér tíu mínútur í fyrri ræðu minni og ég óska eftir að fá að nýta þann tíma sem ég á samkvæmt þingsköpum.

Ég ætla að byrja á því að þakka fyrir umræðuna sem fram hefur farið um þetta mál og þakka hv. þingmönnum sem tekið hafa þátt í henni fyrir góðar viðtökur og ég fæ ekki betur séð en að mikil almenn samstaða sé um málið, enda þótt menn hafi í umræðunni velt upp ýmsum spurningum sem hafa vaknað um jaðartilfelli þess sem hér er fjallað um.

Ég vil fyrst bregðast við því sem hefur verið rætt um varðandi 1. gr. frumvarpsins þar sem gert er ráð fyrir að þar sem talað er um endurgreiðslu virðisaukaskatts af verksmiðjuframleiddum íbúðarhúsum verði einnig bætt við hugtakinu húseiningum.

Hér hefur komið fram spurning um hvort um sé að ræða húseiningar eða verksmiðjuframleidd hús, hvort sem þau eru framleidd hér á landi eða erlendis. Því er til að svara að hér er verið að fjalla um öll verksmiðjuhús og húseiningar, hvort sem um er að ræða innlenda eða erlenda framleiðslu. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef mundi það ekki standast ákvæði EES-samningsins að skilja þar á milli. Þannig að það er ekki talið heimilt.

Líka er rétt að geta þess að verið er að fjalla um endurgreiðslu af vinnu en ekki efni og samkvæmt reglugerðinni sem þar er unnið eftir miðast endurgreiðslan við áætlaðan kostnað eða áætlað hlutfall vinnunnar af heildarkostnaði.

Annað álitamál sem hefur komið upp varðar það hvort unnt sé að láta þetta ná til vinnu sem framkvæmd er utan byggingarstaðar og því er þá til að svara að mat þeirra sem gerst þekkja og vinna með þessi mál daglega er að afskaplega erfitt sé að koma á slíku fyrirkomulagi. Eftirlit með því yrði mjög erfitt og mjög snúið að takmarka það á nokkurn hátt. (Gripið fram í.) Ég kem að því á eftir, hv. þingmaður. Vegna þess að þá yrði væntanlega að opna á endurgreiðslu án takmörkunar á allt efni sem keypt er t.d. í byggingarvöruverslunum. Allir sjá í hendi sér að þá væri verið að opna mikla flóðgátt sem ekki sæi fyrir endann á. Þannig að við höfum ekki gert tillögu um þetta. Þetta kom til umfjöllunar en ekki er tillaga um að takmarka eða opna það með þessum hætti. Ég tel að ekki séu forsendur til þess. En eftir sem áður er verið að gera veigamiklar breytingar sem eru mjög til hagsbóta fyrir þá sem um ræðir.

Sérstaklega var spurt um arkitekta, verkfræðinga, hönnuði og tæknifræðinga sem vinna utan byggingarstaðar. Það er rétt að í öllum meginatriðum gera þeir það. Þó á það ekki við um þann þátt í vinnu þeirra sem lýtur að eftirliti og umsjón með verkefninu. Það fer að sjálfsögðu fram á byggingarstað eðli málsins samkvæmt. En hönnunin fer fram á vinnustofum hönnuða.

Hér er verið að tala um þá vinnu þeirra sem tengist nákvæmlega þeim framkvæmdum sem greinin fjallar um. Þ.e. byggingu íbúðarhúsnæðis eða frístundahúsnæðis eða viðhald og endurbætur þess háttar húsnæðis og húsnæðis sem gert er ráð fyrir að bætist við, þ.e. annars húsnæðis sem alfarið er í eigu sveitarfélaga. Við tengjum þetta því sérstaklega við þau hús og þær framkvæmdir og ljóst er að undanfari þess að byggingarvinna eigi sér stað er í langflestum tilvikum hönnun sem arkitektar, tæknifræðingar og byggingarfræðingar inna af hendi. Þannig að við teljum að full rök séu til þess að taka þessa hópa sérstaklega inn og ekki síður með vísan til þess atvinnuástands sem við horfum upp á í þessum geira, sem er í einu orði sagt geigvænlegt.

Aðrir hópar sem hér hafa verið nefndir, svo sem iðnaðarmenn og byggingarverkamenn, njóta að sjálfsögðu þeirra ákvæða sem frumvarpið gerir ráð fyrir, þ.e. byggingarvinnuna sjálfa, hvort sem það eru nýbyggingar eða endurbót og viðhaldsverkefni. Þeir njóta þess þannig að frumvarpið miðar að því að örva byggingarstarfsemina og skapar að sjálfsögðu þeim aðilum, sem hér hefur sérstaklega verið minnst á, störf. Þannig að ég tel að hér sé stigið mjög mikilvægt og stórt skref. Vel kann að vera að menn vilji skoða aðra þætti í framhaldinu en ég held að þá sé skynsamlegast að gera það með þeim hætti að við fáum nokkra reynslu af fyrirkomulaginu.

Við sjáum hvaða áhrif þessar breytingar hafa. Allir umsagnaraðilar sem hafa fjallað um málið mæla með samþykkt frumvarpsins, ýmist eins og það var lagt fram eða með þeim breytingartillögum sem nefndin gerir. Ég tel mikilvægt að við látum á það reyna hvort þetta nær ekki einmitt því markmiði að örva atvinnustarfsemi í byggingargeiranum. Ég er sannfærður um að það mun gera það og tel þess vegna að við stígum mikilvægt skref í þá veru.

Ég vil líka, frú forseti, vísa til umsagnar sem nefndinni barst frá Samtökum atvinnulífsins þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

„Atvinnuástand í byggingariðnaði er sem kunnugt er mjög alvarlegt og stefnir í allt að 25% atvinnuleysi í aprílmánuði. Við slíkar aðstæður er einnig ljóst að hætta á skattsvikum og svartri atvinnustarfsemi mun aukast. Markmið hækkunar á endurgreiðslu virðisaukaskatts er að stemma stigu við þessari óheillaþróun. Er þessi breyting í samræmi við tillögur Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins. Jafnframt er hún í anda tillagna starfshóps félagsmálaráðherra um vinnumarkaðsúrræði. Tillögur samtakanna og starfshópsins fólu að vísu í sér víðtækari breytingartillögu, þar sem lagt var til að endurgreiðslan nái einnig til annars húsnæðis í eigu einstaklinga (t.d. sumarbústaði), sveitarfélaga og annarra aðila sem ekki stunda virðisaukaskattskylda starfsemi. Telja Samtök atvinnulífsins að slík víðtækari breyting væri betur til þess fallin að ná tilætluðum árangri.“

Það er einmitt það sem nefndin hefur gert í breytingartillögum sínum. Hún hefur komið til móts við þessi sjónarmið með því að taka inn frístundahús og annað húsnæði sem er alfarið í eigu sveitarfélaga. Þannig að við höfum komið til móts við þessi sjónarmið og víkkað út gildissvið þessara tímabundnu ráðstafana. Ég tel að þannig sé stórt skref stigið í vinnumarkaðsaðgerðum, ef svo má segja, aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að örva atvinnulíf og virkni í byggingargeiranum.

Ég vil ítreka þakkir mínar fyrir þá umræðu sem hér hefur átt sér stað. Ég tel að ég hafi svarað þeim ábendingum sem helst hafa komið fram í máli ræðumanna og vil þakka fyrir þátttökuna í umræðunni og vonast til þess að samstaða geti orðið um þær breytingartillögur sem hér liggja fyrir og við munum sjá að þær munu hafa jákvæð áhrif á atvinnustigið í þessum geira.