136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[13:42]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég held að hér sé merkileg stund, kannski ein af hinum merkilegri á þessu kjörtímabili. Hér er verið að taka af almenn forréttindi þingmanna og ráðherra í lífeyrismálum og við erum einkum að taka til baka (Gripið fram í: Forseta.) það fráleita frumvarp sem Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur báru fram, reyndar ásamt ýmsum öðrum í byrjun, [Háreysti í þingsal.] árið 2003. (Gripið fram í.) Já, það er rétt. Nú höfum við haft þrjár umræður til að ræða það og hafi menn hlýtt á mitt mál í þeim þremur umræðum ættu þeir að vita hvað ég meina vegna þess að ég hef talað nokkuð bert og ljóst um söguna um það sem hér lá á bak við.

Ég held að þetta sé verulegur áfangi í réttlætisátt og til framfara og þetta muni að einhverju leyti sætta þing og þjóð. Það er athyglisvert að það þurfti að setja Sjálfstæðisflokkinn í stjórnarandstöðu (Forseti hringir.) til að þjóðin gæti haft vit fyrir þinginu í þessu máli. Ég segi já.