136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[13:43]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Hér eru afnumin svokölluð eftirlaunalög sem fulltrúar allra stjórnmálaflokka á Alþingi fluttu á sínum tíma. (GAK: Ekki rétt.) Eins og sjá má greiði ég atkvæði með frumvarpinu enda er ég hlynntur þeim meginbreytingum sem þar koma fram.

Það sem skortir hins vegar á þetta frumvarp, og ég vil beina því til ríkisstjórnarinnar, er að tekið verði á því að alþingismenn hlutist til um eigin kjör. Ég tel að ríkisstjórnin ætti að beita sér fyrir því að kjararáði verði falið að ákvarða öll okkar kjör, ekki einungis þingfararkaupið, heldur einnig lífeyrisréttindi og öll önnur kjör sem við njótum. Ástæðan fyrir því að deilurnar um þessi mál eru svo miklar er sú að þingmenn hafa sjálfir fjallað um eigin kjör. (Forseti hringir.) Þannig á það ekki að vera og ég tel eðlilegt að í framhaldinu verði kjararáð (Forseti hringir.) fengið til þess að ákvarða öll okkar kjör.