136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

hagsmunir Íslands í loftslagsmálum.

370. mál
[14:52]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Hér ræðum við mjög mikilvægt mál og er að mínu mati full ástæða til þess að það sé rætt á hv. Alþingi. Það er gert í framhaldi af tillöguflutningi um þetta mál og hafa hv. þingmenn sem töluðu á undan mér farið yfir tillögugreinina sem slíka þannig að ég ætla ekki að lesa hana upp.

Ég vil byrja á að segja, hæstv. forseti, að það er svolítið erfitt að átta sig á því hvar þetta mál er statt og hverju verið er að vinna að af hálfu hæstv. ríkisstjórnar, hver stefna hennar er. Það hefur a.m.k. ekki komið fram í þessari umræðu. Þeir sem talað hafa af hálfu stjórnarsinna stíga ekki alveg í takt því að ég gat ekki skilið hv. þm. Atla Gíslason betur en svo að hann talaði um að við mundum halda íslenska ákvæðinu. Svo kemur hv. þm. Helgi Hjörvar og segir að íslenska ákvæðið verði ekki sótt fram, ekki óbreytt a.m.k. Ég veit því ekki hver stefnan er eða að hverju er verið að vinna. Mér finnst verra að hin nýja ríkisstjórn skuli ekki standa sig betur en sú gamla með það að upplýsa stjórnarandstöðu og atvinnulíf um hver stefnan hennar er og hvert hún ætlar sér í þessum efnum því að við fjöllum hér um alveg gríðarlega stórt mál sem er mikið hagsmunamál.

Mér finnst þess gæta í umræðunni að ákveðnir hv. þingmenn telja að ekki fari saman að vinna að því að minnka útstreymi gróðurhúsalofttegunda, eins og Íslendingar vilja vinna að, og að berjast fyrir þeim hagsmunum sem snúa að okkur Íslendingum sérstaklega og kallað hefur verið íslenskt ákvæði. Hvergi kemur þó fram í þessum viðauka að sérstaklega sé átt við Ísland heldur er nefnt að þarna sé verið að fjalla um lítil hagkerfi þar sem ein framkvæmd getur haft gríðarlega mikil áhrif hlutfallslega á útblásturinn. Að mínu mati fer þetta algjörlega saman. Þess vegna þurfum við ekkert að biðjast afsökunar á því að við höldum á hagsmunum Íslendinga eins og við teljum mikilvægt í þessu sambandi.

Ég vil leggja áherslu á það sem aðrir talsmenn Framsóknarflokksins hafa gert í þessari umræðu, að við framsóknarmenn erum mjög hlynnt að horfa þurfi hnattrænt á þessa hluti og taka þátt í því að minnka útstreymi eins og stefnan er hjá Sameinuðu þjóðunum og Evrópusambandinu. Við viljum ekki skorast undan, síður en svo. Ástæða þess að við náðum þessa mikla árangri í Kyoto var náttúrlega sú að við vorum búin að standa okkur mjög vel. Við vorum búin að ná gríðarlegum árangri við að færa okkur yfir í vistvæna og umhverfisvæna orkugjafa. Það var metið og náðist skilningur hjá alþjóðasamfélaginu á því að það væri rétt og mikilvæg stefna sem hér hafði verið framfylgt. Það er mikill heiður fyrir okkur Íslendinga að náðst hafi skilningur á því á alþjóðavísu og unnu íslenskir ráðherrar af miklum krafti og heilindum að því að ná árangri í þeim efnum.

Ég vil nefna í lokin að það sem verið er að vinna að í sambandi við þessi mál og skiptir máli er hugmyndin um að dæla niður koltvísýringi. Það er eitt af því sem verið er að vinna að rannsóknum á á norrænum vettvangi. Forsætisráðherrar Norðurlanda, sem voru nýlega á fundi hér á landi, fjölluðu einmitt um það og verja Norðurlöndin gríðarlegum fjármunum í að finna nýjar lausnir í orkumálum. Það er mjög spennandi vegna þess að það eru svo miklir fjármunir sem um er að ræða. Hið norræna framlag er um 400 milljónir danskra króna og síðan á að vinna með Evrópusambandinu en þar er ætlað fáist jafnvel enn meira fjármagn til þess að vinna að þessum rannsóknum. Það er því ekki nokkur vafi á því að einhver árangur mun nást á því sviði þegar til lengri tíma er litið en allt tekur sinn tíma, eins og við þekkjum.

Hæstv. forseti. Það er full ástæða til þess að ræða þetta mál vegna þess að það er eitt af stóru málunum. En ég hefði viljað vita meira um hvað ríkisstjórnin ætlar sér í þeim efnum.