136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

sala fasteigna, fyrirtækja og skipa.

371. mál
[15:04]
Horfa

Frsm. viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga á þingskjali 626 sem hv. viðskiptanefnd flytur í heilu lagi.

Þetta er frumvarp til laga um breytingu á lögum um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa, nr. 99/2004, með síðari breytingum.

Frumvarpið er einfalt og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Við lögin [þ.e. lög um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa] bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 19. gr. skal eftirlitsgjald ekki innheimt fyrir árið 2009. Kostnaður við starf eftirlitsnefndar Félags fasteignasala á árinu 2009 skal greiðast úr sjóði nefndarinnar.“

Í greinargerð kemur fram, hæstv. forseti, að þetta litla mál er í rauninni viðbrögð við því frosti sem skall á fasteignamarkaðinn síðasta haust við fall bankanna og það verðhrun sem í kjölfarið varð á fasteignum.

Gerð er tillaga um að lögbundið 100 þús. kr. gjald sem renna á til eftirlitsnefndar Félags fasteignasala á hverju ári verði ekki innheimt á þessu ári enda er ekki þörf fyrir frekari gjaldtöku í bili þar sem sjóðir nefndarinnar eru býsna digrir, einhvers staðar á bilinu 60–80 millj. kr. Því er ljóst að afnám eða niðurfelling gjaldtöku í ár mun ekki skaða eftirlitið eða starfsemi nefndarinnar. Lagabreyting þessi er nauðsynleg því að bundið er í 2. mgr. 19. gr. áðurnefndra laga að innheimta skuli þetta gjald.

Ég vil taka fram að á síðasta ári var lagt fram frumvarp að nýjum heildarlögum um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa. Þá var reiknað með því að þetta umrædda gjald yrði lækkað í 80 þús. kr. á ári og enn fremur að það yrði ekki innheimt fyrr en 1. júlí 2010, sem sagt að fresta innheimtunni um tvö ár, m.a. með tilvísun í þessa digru sjóði.

Það frumvarp varð ekki að lögum og heildarendurskoðun á lögum um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa bíður næsta þings. Hins vegar þykir ekki ástæða til að bíða með að leggja fram þessa breytingu með tilliti til aðstæðna á fasteignamarkaði. Ég geri tillögu um, því að hv. nefnd flytur frumvarpið í heilu lagi og hefur farið vandlega yfir það, að málinu verði vísað til 2. umr.