136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

tollalög, vörugjald og virðisaukaskattur.

365. mál
[15:16]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir orð hv. þm. Ólafar Nordal, ég fagna því að þetta frumvarp er komið fram og ég tek enn fremur undir síðustu orðin í ræðu hennar, að mikilvægasta verkefnið í efnahagsmálum okkar í dag er að lækka stýrivextina.

Ég kom hér upp vegna orða hæstv. ráðherra um dráttarvexti. Ég vil hvetja hann til dáða í þeim efnum, eindregið. Ég vek athygli þingheims á því að 14. nóvember sl. gaf þáverandi ríkisstjórn út fréttatilkynningu um aðgerðir í þágu heimilanna í tíu liðum þar sem gefin voru fyrirheit um aðgerðir til þess að bregðast við þá ríflega mánaðargömlu bankahruni. Það verður því miður að segjast eins og er að þeir þættir sem hér eru taldir í liðum 5, 6, 7, 8 og 9 hafa lítið eða ekki komið til framkvæmda enn þá. Þar á meðal er 8. liður þar sem gefin voru fyrirheit um að lög um dráttarvexti verði endurskoðuð með það að markmiði að þeir lækki.

Þessu kom fyrrverandi ríkisstjórn því miður ekki í gagnið en ég fagna því að hæstv. fjármálaráðherra hefur tekið þar upp þráðinn sem þjóðinni var lofað í kjölfar hrunsins og ég hvet hann til dáða í þeim efnum.