136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

tollalög, vörugjald og virðisaukaskattur.

365. mál
[15:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég fagna þessu frumvarpi eins og öðrum frumvörpum sem ætlað er að bæta stöðu atvinnulífs og þar með heimilanna. Það er beint samhengi þar á milli eins og menn hafa séð, þegar fyrirtækjum gengur illa myndast atvinnuleysi og þá gengur mörgum heimilum illa. Því fagna ég þessu frumvarpi.

Menn hafa rætt dálítið um vexti og það er talað um að setja innlánsvexti en ekki dráttarvexti á þessar kröfur og það er kannski eðlilegt í þessari stöðu. Ég vil þó benda á að gengið hefur lagast mjög mikið, gengisvísitalan er núna 188, var yfir 220 í janúar, lækkaði reyndar töluvert mikið áður en stjórnarskiptin urðu og hefur lækkað eilítið síðan. Það má segja að gengið hafi lækkað um 14–15%, (Gripið fram í: Vísitalan.) gengisvísitalan, já, ég þakka hæstv. ráðherra leiðréttinguna. Það þýðir að maður sem skuldaði 44 milljónir t.d. vegna gengistryggðs íbúðarláns sem hann tók, sem hann tók ákvörðun um að hafa gengistryggt, skuldar ekki nema tæpar 38 milljónir. Skuld hans hefur lækkað um 6 milljónir á þessum tíma, 1–2 mánuðum. Það þýðir að staða hans er orðin ögn betri, hún var náttúrlega orðin alveg óheyrilega slæm. Ef hann hafði tekið lán upp á 30 milljónir eða þar um bil þá hafði lánið hækkað óskaplega mikið.

Hið sama á við um bílalánin og önnur gengistryggð lán. En það er fleira sem fylgir í kjölfarið á batnandi gengi. Gengið er að styrkjast vegna þess að við erum búin að takmarka það nánast við vöruskipti, það er reyndar hægt að borga vexti af kröfum til útlanda en að öðru leyti eru þetta vöruskipti. Vöruskipti eru jákvæð og ég vil bara benda á það, herra forseti, af því að það er svo mikið af neikvæðum fréttum og neikvæðu tali að það er hinn sterki útflutningur sem mun fleyta Íslendingum yfir þennan hjalla, t.d. tvöföldun á álútflutningi þar sem Kárahnjúkavirkjunin kemur nú og bjargar okkur fyrir horn. Fiskurinn líka, hann er reyndar óbreyttur en það sem er kannski áhyggjuefnið í báðum þessum útflutningsgreinum er að verð er að lækka. Engu að síður er mikil aukning á magni í álinu.

Þessi gengisþróun mun svo hafa bein áhrif á verðlag. Verðbólguhraðinn við síðustu mánaðamót var 6,9%, hraðinn yfir þau einu mánaðamót, og hefur lækkað allverulega. Ég reikna með því að ef neytendur eru duglegir að beita samkeppninni og gæta þess að verðlag lækki með lækkandi gengi á erlendum gjaldmiðli, styrkingu krónunnar — þetta er háð því að neytandinn sé á tánum, og það er hann virkilega núna — þá sé ég ekki annað en að jafnvel um næstu mánaðamót eða þarnæstu ætti að verða verðhjöðnun. Það ætti auðvitað að endurspeglast í stýrivöxtum Seðlabankans, eiginlega bara um leið.

Þar með eru margar þeirra forsendna og mörg þeirra vandamála sem íslenskt atvinnulíf hefur verið að glíma við horfin, þ.e. mjög háir stýrivextir ættu að falla hratt við það, verðbólga ætti að fara mjög hratt niður, þar með lagast staða þeirra sem eru með verðtryggð lán. Og eins og ég gat um hefur staða þeirra sem eru með gengistryggð lán nú þegar lagast frá því að hún var verst en auðvitað var hún orðin allt að því óbærileg fyrir marga.

Þetta eru allt saman mjög góðar fréttir og hér kemur ríkisstjórnin með gott mál til að laga þetta enn frekar og aðstoða fyrirtæki sem eru í innflutningi við að koma vörum sínum í gegnum toll með aðstoð ríkisins, með því að dreifa greiðslunum. Verði frumvarpið að lögum eiga þau að taka gildi nú þegar á yfirstandandi ári og það er einmitt það ár sem menn hafa talið að yrði þjóðarbúinu hvað þungbærast. Strax upp úr næstu áramótum á þetta að fara að lagast og ég vil bara segja, af því að menn eru alltaf að tala svona döprum tón og mála dökkar myndir, að mér finnst þetta bara vera nokkuð jákvætt allt saman, bæði þróun á genginu og væntanleg þróun á vísitölu og svo hvernig útflutningurinn malar og malar og sér okkur fyrir gjaldeyri sem styrkir krónuna.

Ég mun sjá til þess að þetta frumvarp sem hefur komið frá hæstv. ríkisstjórn muni fá mjög hraða afgreiðslu í nefndinni eins og ég hef gert með öll önnur góð mál frá ríkisstjórninni. Ég ætla ekki að hafa þessa orðræðu miklu lengri því að hún tefur framgang málsins líka.