136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

tollalög, vörugjald og virðisaukaskattur.

365. mál
[15:24]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með síðasta ræðumanni, ég ætla ekki að tefja þetta mál. Eiginlega var erindi mitt hingað upp það að óska eftir því að þetta gæti gengið hratt í gegnum þingið. Ég er viss um að formaður nefndarinnar mun beita sér fyrir því að svo geti orðið því hér er a.m.k. viðleitni í þá átt að standa með atvinnulífinu og aðstoða það í þessum miklu hremmingum. Ég trúi því að þetta frumvarp verði til gagns þegar það er orðið að lögum. Samkvæmt 4. gr. eiga lögin að taka gildi strax þannig að þess vegna er mögulegt að láta hlutina gerast hratt.

Það kom fram hjá hæstv. ráðherra að ríkisskattstjóri hefur verið með í ráðum og hann getur eflaust uppfrætt nefndina um hluti sem þarf að svara af hálfu stjórnvalda.

Fyrst hv. þingmaður kom með þennan bjartsýna tón inn í umræðuna — þá er ég að tala um síðasta ræðumann — er kannski leiðinlegt að fara að draga það eitthvað niður en ég leyfi mér samt að velta því upp hvort það er í raun hægt að tala um eitthvert raunverulegt gengi á krónunni þegar hún er jafnbundin og hún er. Hún er ekki á markaði í raun og veru, ekki að öllu leyti og þó að vissulega sé gott að vita að íslenska krónan sé eitthvað að styrkjast óttast maður að það sé ekki bót til framtíðar og þetta sé áfram ófremdarástand hjá okkur þannig lagað séð, að við sjáum ekki fram á neinn stöðugleika eða lausn til framtíðar. Ekki síst hvað varðar bankana sem mikið er búið að tala um að ekki takist að gera efnahagsreikning fyrir út af því m.a. að markaðsgengi og markaðsverð vantar á íslensku krónuna. Það eru því verk að vinna áfram, svo sannarlega, en þetta mál hér er greinilega til bóta og því þarf að hraða í gegn.

Það kom líka fram hjá síðasta ræðumanni að vöruskiptin væru jákvæð og það er m.a. út af því hvernig gengið er, að við erum að fá tiltölulega gott verð fyrir íslenska framleiðsluvöru — hann nefndi álið og ekki þótti mér leitt að hlýða á umræðu um að álið skipti máli, þar er ég innilega sammála, en fiskurinn er því miður ekki í góðum málum þannig lagað séð, það er birgðasöfnun og ekki hátt verð, það er lækkun allt að 40% á verði sjávarafurða núna, talið í evrum. Það er ekki til að gleðjast yfir. Ég veit að það er ljótt að fara að draga niður þann jákvæða tón sem kom fram hjá hv. formanni efnahags- og skattanefndar (Gripið fram í.) en raunveruleikinn er bara sá að þetta er allt saman mjög þungt hjá okkur, Íslendingum, og verður eflaust áfram.

Ég vonast svo til þess að fleiri mál komi frá ríkisstjórninni í líkingu við það sem hér er til umfjöllunar, mál sem eru sett fram til að bæta stöðu atvinnulífsins.