136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

tollalög, vörugjald og virðisaukaskattur.

365. mál
[15:29]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvar hv. þingmaður hefur fengið upplýsingar um að meginhluti þjóðarinnar sé í góðum málum. Ég óttast að það sé því miður ekki þannig, þetta kemur við nánast öll heimili. Þegar fjöldi atvinnulausra er farinn að skipta þúsundum, jafnvel 16.000 orðnir atvinnulausir, þá erum við í mjög alvarlegum málum. Ég vona að hv. þingmaður sé í það góðum tengslum við þjóðfélagið að hann geri sér grein fyrir því að þetta er mjög alvarlegt og getur átt eftir að versna. Vanalega er það samt þannig að stjórnarandstæðingar eru með barlóm en stjórnarsinnar reyna að halda fram jákvæðu hliðunum. Nú snýst þetta eitthvað við, a.m.k. með hv. þingmann, hann vill reyna að telja kjark í þjóðina og það er sannarlega mikilvægt að gera það líka, en við verðum samt að horfa á hlutina eins og þeir eru, a.m.k. miðað við það sem maður les og heyrir erum við því miður ekki á nokkurn hátt komin í gegnum þann skafl sem blasir við okkur.