136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

tollalög, vörugjald og virðisaukaskattur.

365. mál
[15:37]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er dálítið hissa á þessari ræðu hv. þingmanns vegna þess að verðandi formaður hans — það er ekki nema einn maður sem hefur boðið sig fram enn þá til formanns í Sjálfstæðisflokknum — hefur tekið undir með okkur framsóknarmönnum. Hann hefur sagt (Gripið fram í.) opinberlega að þetta séu athyglisverðar tillögur.

Við þurfum að hafa það í huga að miðað við það sem komið hefur fram þá er verið að tala um að nýju bankarnir taki við skuldapökkunum úr gömlu bönkunum með 50% afföllum — það er grundvallaratriðið í þessum tillögum — og síðan ætla nýju bankarnir að innheimta 100%, sem sagt að kaupa á fimmtíukall og innheimta á hundraðkall. Það eru þessir fjármunir sem við ætlum að nýta til að jafna út, færa lánin sem eru hjá bönkunum yfir í Íbúðalánasjóð og nýta þennan mun þannig að það séu forsendur og svigrúm til að greiða niður um þessi 20%. Menn verða að hafa þetta í huga þegar þeir tjá sig um þessa tillögu en ekki bara hrópa upp að fólkið í blokkinni eigi að borga.

Við verðum líka að hafa í huga að skuldir hafa hækkað það mikið núna vegna verðbólgunnar á örfáum árum og vegna gengisþróunarinnar að þessi 20% eru bara til þess að taka kúfinn af síðustu tvö ár. Það hafa komið fram tillögur frá öðrum um að gera það miðað við vísitölu á einhverjum ákveðnum tímapunkti og taka á sig mismuninn. Þetta er í rauninni sams konar tillaga bara aðeins öðruvísi orðuð.