136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

tollalög, vörugjald og virðisaukaskattur.

365. mál
[15:42]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Það væri synd að segja að ég hefði ástæðu til að kvarta undan þeim undirtektum sem frumvarpið hefur fengið, að svo miklu leyti sem það hefur verið til umræðu hér. En ég kvarta að sjálfsögðu ekki undan því að menn ræði tengd mál og skyld mál, þeir erfiðleikar sem við er að glíma hjá heimilum og atvinnulífi eru okkur öllum hugleiknir, eða nærri í andanum.

Ef ég má aðeins, virðulegi forseti, blanda mér í umræðurnar sem urðu hér áðan vil ég taka undir það með hv. þm. Pétri H. Blöndal að ég hef enn ekki rekist á þá erlendu kröfuhafa — og ég hef rætt við býsna marga á undanförnum dögum — sem hafa sérstakan áhuga á að gefa okkur Íslendingum peninga. Ég hef hins vegar hitt marga sem eru ansi þungir á brún og vilja reyna að fá sem mest af sínu til baka.

Það er veruleiki sem við verðum að horfast í augu við að fjölmargir stórir aðilar, bankar og fjármögnunaraðilar, sem sumir hverjir hafa átt í áratugaviðskiptum við Ísland, tapa hér miklum fjármunum. Heilmiklu máli skiptir hvernig tekst til í samskiptum við þá, að það takist að gera það besta úr þessari erfiðu stöðu og bjarga öllum þeim verðmætum sem hægt er að bjarga þannig að skaðinn verði lágmarkaður fyrir alla, bæði okkur og þá. Við höfum væntanlega áhuga á því að gríðarstórir bankar eins og Sumitomo og Bayerische Landesbank, eða hvað þeir nú heita, sem hafa stundað viðskipti hér og lánað til Íslands áratugum saman hafi áhuga á að gera það áfram.

Varðandi afskriftir skulda má út af fyrir sig ræða það sem er að gerast eða gerðist í yfirfærslu mála frá gömlu bönkunum og til hinna nýju. En menn verða þá að hafa í huga að varhugavert er að nota einhverjar brúttótölur. Niðurskriftin er ekki söm á öllu og að breyttu breytanda má reikna með því að fasteignaveðlánasöfn séu færð hvað minnst niður, einfaldlega vegna þess að tryggustu veðin eru þar á bak við og yfirleitt einna öruggustu greiðslurnar.

Önnur lánasöfn eru miklu áhættusamari og þá taka menn mið af stöðu þeirra atvinnugreina eða fyrirtækja sem í hlut eiga og hvernig horfur eru þar o.s.frv. Þannig að þetta er aðeins flóknara mál en það lítur út fyrir í byrjun.

Að sjálfsögðu má ekki gleyma því að verulegur hluti skulda heimilanna hefur alls ekki sætt þessari meðferð. Íbúðalánasjóður hefur engar afskriftir fengið. Hann hefur ekki tekið við lánum hjá neinum öðrum og er með útlán til heimila upp á 575 milljarða kr. Þar hefur engin króna verið afskrifuð frá öðrum aðila.

Lífeyrissjóðirnir hafa ekki fært lánasöfn sín eða fengið þau frá neinum öðrum sem hefur afskrifað þau. Þeir eru með um 170 milljarða í útlánum til heimila o.s.frv. Sparisjóðirnir hafa ekki fengið neina slíka afskrift af því að þeir eru sjálfstætt starfandi stofnanir sem ekki hafa farið sömu leið og bankarnir. Þarna liggur drjúgur hluti fasteignaveðlána heimilanna, líklega samtals á milli 800 og 900 milljarða, þegar sparisjóðirnir eru lagðir við Íbúðalánasjóð og lífeyrissjóðina. Að sjálfsögðu yrði einhver að taka á sig þær afskriftir sem þar ættu þá að eiga sér stað. Í raun og veru yrðum við sjálf, þ.e. Íbúðalánasjóðurinn okkar og lífeyrissjóðirnir okkar, sem við eigum saman, í því hlutverki að færa skuldirnar niður og það hefði áhrif á eiginfjárstöðu þeirra og þeir peningar þyrftu að koma einhvers staðar frá.

Virðulegi forseti, ég fer yfir þetta í almennum orðum, eins og þetta kemur mér fyrir sjónir. En ég geri að sjálfsögðu ekki lítið úr hugmyndum um að reyna að taka skuldavandann niður. Miðað við takmarkað svigrúm þjóðarbúsins og gríðarlega erfiða skuldastöðu okkar, bæði inn á við og út á við, held ég að við verðum að vera mjög hnitmiðuð í aðgerðum okkar og reyna að beina þeim að þeim sem eru í mestri þörf fyrir stuðninginn. Það sama á að sjálfsögðu við í atvinnulífstengdum aðgerðum. Við þurfum að yfirvega þær og skoða vel.

Vegna þess að hér var rætt um vexti er ég kannski ekki í aðstöðu til að segja mikið meira en ég sagði áðan. Ég vil þó sérstaklega óska eftir því að eiga gott samstarf við efnahags- og skattanefnd, sem ég treysti auðvitað á og veit að verður í boði. Einfaldlega vegna þess að vegna aðstæðna gæti verið æskilegt ef nefndin væri tilbúin til að skoða það að taka að sér að flytja tilteknar æskilegar lagabreytingar í tengslum við málið. (PHB: Dag og nótt.) En ég mun þá eiga nánari samráð við nefndina um það mál og við í fjármálaráðuneytinu munum koma upplýsingum til þeirra sem hlut eiga að máli.

Einnig minni ég á það að vera í góðu samstarfi við ríkisskattstjóra um þetta mál því að sjálfsögðu skiptir miklu að þessi útfærsla takist vel og valdi ekki vandræðum, hvorki tæknilegum né í ákveðnum tilvikum hvað fordæmisgildi varðar.

Það sem sagt var um gengis- og verðlagsþróun, vöruskipti og annað er allt á sínum stað. Sem betur fer er hárrétt að gengis- og verðlagsþróunin er nú jákvæð. Það er gríðarlega mikilvægt og enginn skyldi gera lítið úr því að sú styrking krónunnar sem orðin er frá áramótum er mjög dýrmæt sem og það að hún skuli halda áfram. Undirliggjandi verðbólguþrýstingur er enginn eða kannski minni en enginn, eins og raun og veru fólst í máli hv. þm. Péturs H. Blöndals, sem gefur von um hraða lækkun verðbólgu á næstunni. Hvort tveggja er dýrmætt andlag þess að vextir geti lækkað hratt.

Staðan í bankakerfinu og hjá fjármálastofnunum er að mínu mati sú að þar er beðið eftir vaxtalækkunum. Þar er beðið eftir því að Seðlabankinn lækki stýrivexti þannig að menn geti lækkað vaxtastigið í bönkunum. Innlánsvextir eru auðvitað fáránlega háir við þessar aðstæður og engin þörf á að hafa þá þar og þeir þurfa að lækka til þess að útlánsvextir geti einnig farið niður.

Varðandi viðskiptajöfnuðinn er að sjálfsögðu gott að hann er jákvæður. Hann er það að hluta til enn vegna þess, eins og fram hefur komið, að gengi krónunnar gaf mjög mikið eftir og fór mjög lágt þannig að innflutningur dróst afar hratt og mikið saman og að margra mati var það tímabært og þótt fyrr hefði verið að eyðsluæðið rynni eitthvað af þjóðinni. Það er ekkert sérstakt vandamál á Íslandi í dag að flytja þurfi inn fleiri ameríska pallbíla eða eitthvað því um líkt. Ég held að við komumst af án þeirra og margra annarra hluta sem flæddu inn í landið á meðan gengið var jafnvitlaust skráð í hina áttina, eins og það var kannski öfugt í hina neikvæðu átt um síðustu áramót.

Það sem vinnur á móti okkur er verðfall á afurðum og ef ekki kæmi til þessi eftirgjöf krónunnar blési nú ekki byrlega fyrir íslenskum sjávarútvegi og þol hans til að taka á sig mikla viðbótarstyrkingu krónunnar er ekki mikið, nema vaxtalækkun verði umtalsverð og hið sama gildir um fleiri atvinnugreinar.

Heilmikið af áli er flutt út en þar er verðið komið í sögulegt lágmark og ég held að ég verði að leyfa mér að segja hér, ekki til að kveikja einhverja elda, að veruleikinn er sá að álverð er orðið svo lágt að það er umtalsvert fyrir neðan þau viðmiðunarmörk sem lögð voru til grundvallar í arðsemisútreikningum nýjustu álsamninga. Það er mikið áhyggjuefni vegna þess að það hefur bein áhrif á hina hliðina, raforkuverð til orkufyrirtækjanna er beintengt álverðinu og þau fá mun minna fyrir rafmagnið en þau þyrftu að fá að frádregnum kannski einhverjum vörnum sem þau reyna að koma við. Að lokum hlýt ég að minna á að þetta er ekki allt gull í hendi af því að borga þarf lánin sem voru tekin til að byggja virkjanirnar og þau taka heldur betur í núna, eins og við sjáum á bókhaldi orkufyrirtækjanna.

Þriðja meginstoð gjaldeyrisöflunar, ferðaþjónustan, er kannski sú grein sem ég er bjartsýnastur á núna. Ég held að sem betur bendi margt til þess að ferðaþjónustan geti nýtt sér vel þær aðstæður sem hér hafa skapast, hagstæðara gengi og kannski, svo undarlegt sem það er, að einhverju leyti þá landkynningu sem Ísland hefur fengið að undanförnu, þótt hún sé að sjálfsögðu ekki öll á þeim nótum sem við kysum helst. En Ísland hefur fengið gríðarlega athygli og forvitni vaknað og kannski áhugi á því að heimsækja landið á fleiri forsendum en yfirleitt hafa verið, en flestir hafa komið hingað sérstaklega til að skoða íslenska náttúru og/eða njóta íslenskrar menningar og annað í þeim dúr.

Ég bind miklar vonir við að ferðaþjónustan verði okkur enn dýrmætari og mikilvægari uppspretta gjaldeyris og atvinnusköpunar á komandi mánuðum og missirum. Það kæmi sér ákaflega vel. Ferðaþjónustan er afar hagstæð hvað það varðar að nettóvirðisauki af starfsemi hennar, sem eftir verður í íslenska hagkerfinu, er mjög hár eða um 80%. Ferðaþjónusta skapar hlutfallslega mörg störf miðað við veltu, er mannaflafrek og afrakstur hennar dreifist mjög víða og bætir afkomu rekstrar ýmissa þátta í samfélagi okkar sem er gott og gagnast okkur.

Fjórða uppspretta gjaldeyrissköpunar á ekki heldur að gleymast, en það er innlend framleiðsla fyrir innanlandsmarkað sem eykur aðföng og innlendan tilkostnað og við getum nýtt okkur til að draga úr þörfinni fyrir innflutning og gjaldeyriseyðslu. Ég get nefnt eitt skemmtilegt dæmi sem er kornrækt í landbúnaði. Nú stefnir í að um helmingur af byggþörf landsins komi úr eigin ræktun okkar. Athyglisvert er að nú þegar sjáum við fyrir helmingsþörf okkar á einu sviði kornræktar og getum gert miklu betur á því sviði og mörgum öðrum.

Einhvern tímann hefði þótt saga til næsta bæjar að menn leyfðu sér að velta því fyrir sér að Ísland gæti kannski innan tiltölulega fárra ára orðið að verulegu leyti sjálfu sér nægt um korn, bæði til fóðurs og manneldis. En það er ekki jafnfjarlægur möguleiki og menn hefðu áður talið. Þarna liggja miklir verðmætasköpunarmöguleikar. Möguleikar á því að skapa störf og draga úr þörfinni fyrir innflutning og notkun dýrmæts gjaldeyris.

Þannig að möguleikarnir eru sannarlega ýmsir og ýmislegt leggst sem betur fer með okkur þessa dagana og hægt að taka undir það með hv. þm. Pétri H. Blöndal. En fram hjá hinu verður ekki horft að við þurfum að vinna okkur út úr gríðarlegum erfiðleikum, risavöxnum erfiðleikum, efnahagsáfalli og nánast kerfishruni sem er einsdæmi í þróuðu ríki. Því miður fer stærðargráða efnahagshrunsins á Íslandi á allan hlutlægan mælikvarða fram úr öðru sem sést hefur á undanförnum áratugum í þróuðum ríkjum. Ég hef aðeins borið þetta saman. Þetta er miklu stærra en bankakreppan á Norðurlöndunum 1990, stærra en kreppa Suður-Kóreu og kreppa Taílands. Þetta er stærra en kreppa Færeyja og voru þeir miklu erfiðleikar þó enginn smáskellur á árunum upp úr 1990.

En Ísland er sterkt, vel uppbyggt og þróað samfélag með vel menntað og vinnufúst fólk og við eigum líka mikla möguleika og mörg tækifæri til að vinna okkur út úr þessu og það ætlum við að sjálfsögðu að gera.

Þessi ræða, herra forseti, var kannski ekki í beinum efnistengslum við þetta litla frumvarp um greiðsluaðlögun eða gjaldaaðlögun fyrir fyrirtækin til að auðvelda þeim lífið í gegnum erfiðleikana og vegna þess gengisfalls, samdráttar og verðbólgu og fleiri vandræða sem hafa hrjáð íslenskt atvinnulíf. En hún var ekkert verr staðsett fyrir það. Ég endurtek svo þakkir mínar fyrir góðar undirtektir sem frumvarpið hefur fengið og óska því góðrar ferðar inn í efnahags- og skattanefnd.