136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

366. mál
[15:56]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Í frumvarpi þessu er að finna tillögur um ýmsar breytingar á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda með það að markmiði að styrkja skattframkvæmd og vinna gegn skattundanskoti.

Í fyrsta lagi er lagt til að aðilar sem ekki hafa heimilisfesti hér á landi og bera því takmarkaða skattskyldu, sæti hér skattlagningu vegna vaxta sem þeir fá greidda hér á landi. Að baki tillögunni eru margvísleg rök. Vaxtatekjur íslenskra skattaðila, einstaklinga sem fyrirtækja, eru skattskyldar og ójafnræði felst í því að undanskilja vaxtatekjur erlendra aðila skattlagningu. Aðrar tegundir tekna erlendra aðila, sem aflað er hér á landi, svo sem laun, þóknanir, rekstrarhagnaður, arður, leigutekjur og söluhagnaður eru skattskyldar hér og með skattlagningu vaxta er verið að skapa samræmi í þessum efnum. Ein meginástæða þess að tillöguna er að finna í þessu frumvarpi er að skattleysi vaxta úr landi opnar leiðir til að skjóta tekjum undan skatti hér á landi. Þá er þess að geta að skattlagning vaxta, eins og annarra tekjustrauma úr landi, er nær almenn regla í skattalöggjöf í okkar heimshluta. Benda má á að íslenskt atvinnulíf er nú mjög skuldsett og því ljóst að á næstu árum mun umtalsverður hluti landsframleiðslunnar renna úr landi í formi vaxta til erlendra aðila. Skattlagning vaxta mun tryggja það að nokkur hluti þeirra mun renna í sameiginlegan sjóð landsmanna.

Vegna tvísköttunarsamninga eða fyrir tilverknað innlendrar skattalöggjafar veldur skattur á vexti í upprunalandi þeirra því ekki að skattbyrðin á þessar tekjur eykst. Sá skattur sem lagður er á vaxtatekjurnar skiptist á milli upprunalands teknanna og heimalands tekjuhafans. Samkvæmt tvísköttunarsamningum sem Ísland hefur gert er um tvennt að ræða. Annars vegar eru skattar á vexti milli ríkjanna felldir niður og hins vegar er í mörgum tilvikum gert ráð fyrir rétti upprunaríkisins til að leggja afdráttarskatt á vexti. Í þeim tilvikum sem tvísköttunarsamningar kveða á um að skattlagningarréttur á vöxtum sé á Íslandi eiga móttakendur vaxtanna rétt á endurgreiðslu eða frádrætti í sínu heimaríki. Með þessu móti ætti skattbyrði móttakanda vaxtanna ekki að þyngjast og ætti þannig ekki að hafa áhrif á það vaxtastig sem innlendir aðilar bera. Ég vil árétta að ekki er verið að leggja skatt á þá sem inna vaxtagreiðslurnar af hendi heldur þá sem eru móttakendur vaxtanna.

Undanþága frá skattinum er veitt þeim sem fá vaxtagreiðslur frá Seðlabanka Íslands sem og erlendum ríkjum, alþjóðastofnunum og erlendum opinberum aðilum sem ekki eru skattskyldir í heimaríkinu. Gert er ráð fyrir að staðgreiðsla af vöxtum verði samkvæmt ákvæðum laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. Verðlags- eða gengisbreytingar á höfuðstól krafna í eigu erlendra aðila sæta ekki skattskyldu eða staðgreiðsluskyldu vegna þessa.

Ekki er gert ráð fyrir að innheimta skatts af vöxtum til aðila með takmarkaða skattskyldu hefjist fyrr en í upphafi árs 2010 og gefst því viðkomandi aðilum góður tími til að undirbúa þá framkvæmd.

Í öðru lagi er mælt fyrir um breytingar á lögum um tekjuskatt í kjölfar þess að á Alþingi hefur verið lagt fram frumvarp til laga um breyting á lögum um gjaldþrotaskipti og fleira. Í því frumvarpi er kveðið á um úrræði fyrir einstaklinga í greiðsluvanda. Af þessu tilefni þykir rétt að taka af öll tvímæli um að eftirgjöf skulda samkvæmt nauðasamningi um greiðsluaðlögun skuli ekki teljast til skattskyldra tekna.

Í þriðja lagi er lagt til að lögfest verði ákvæði um skattlagningu aðila sem eiga beina eða óbeina eignaraðild að félögum, sjóðum eða stofnunum sem eru heimilisföst í lágskattaríkjum. Löggjöf af þessum toga er til staðar á Norðurlöndum og í flestum löndum hins vestræna heims. Meginmarkmið slíkrar löggjafar er að hamla gegn skattsniðgöngu sem fram fer með þeim hætti að innlendir aðilar leyna eignum sínum og flytja tekjur úr landi í félög sem þeir stofnsetja í lágskattaríkjum án þess að hafa í reynd nokkra starfsemi þar. Aukið frjálsræði í flutningi fjármagns á milli landa kallar á breytingar á íslenskri löggjöf hvað þetta varðar. CFC-löggjöfin svonefnda, sem stendur fyrir Controlled Foreign Corporation á ensku, er algengasta ráðstöfun ríkja gegn undanskoti skatta með framangreindum hætti.

Hér er sem sagt um alþjóðlega velþekkta og viðurkennda aðferð að ræða sem tekin hefur verið upp í velflestum þeim ríkjum sem við berum okkur helst saman við hvað skattamál snertir. Það undarlega er og spurningin er auðvitað: Hvers vegna í ósköpunum var ekki búið að gera þetta hér?

Meginatriði hinna nýju ákvæða eru þau að ef íslenskur skattaðili á eða hefur umráð yfir félagi sem staðsett er á lágskattasvæði er við skattlagningu litið svo á að tekjur þess félags séu í reynd tekjur hins íslenska skattaðila og þær skattlagðar með öðrum tekjum hans.

Móðurfélagið er sem sagt skattlagt þar sem það er staðsett og ber að skila skatti af hlutdeild sinni í þeim umsvifum félagsins sem falið er eða geymt er á lágskattasvæðinu.

Tilgangur með löggjöf sem þessari er að draga úr skattsniðgöngu. Má því reikna með að félögum í eigu íslenskra aðila á aflandssvæðum fækki og skattskil þeirra verði betri.

Væntanlega er það fyrst og fremst í tvennum tilgangi sem menn kjósa að skrá eignarhald félaga á slíkum svæðum og hvorugur tilgangurinn er sérstaklega göfugur, þ.e. annars vegar til þess að komast undan skatti en hins vegar er það til að dylja eignarhald og fela eignatengsl og eignarhald í flókinni keðju félaga sem eiga í öðrum félögum á milli landa og enda gjarnan á Tortólaeyju eða hvar það nú er. Það verður að segjast alveg eins og er að sá fjármálaráðherra sem hér talar hefur litla samúð með hvoru tveggja. Menn eiga að sjá sóma sinn í því að borga skatta ef þeir hafa góða afkomu og leggja sitt af mörkum og það má undrast hversu sljó íslensk stjórnvöld hafa verið á umliðnum árum við að fylgjast með þróun mála í þessum efnum og hafa ekki skipað sér að minnsta kosti í fararbrodd ásamt hinum Norðurlöndunum í viðleitni til þess að taka á skattsniðgöngu og í því að styðja viðleitni til dæmis Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, sem hefur á undangengnum árum hvatt aðildarríki sín til þess að takast á við þetta vandamál. Nú er annað uppi þegar bæði austan hafs og vestan hvín nú í stjórnmálamönnum sem ekki hefðu talað þannig fyrir nokkrum árum, að það verði að takast á við þetta og munar auðvitað um minna en það ef Bandaríkin með öllu sínu afli fara að beita sér fyrir alvöru í því að loka skattasmugum, en það er helst að heyra á fjármálaráðherra og ráðherrum í nýrri ríkisstjórn Obamas.

Í fjórða lagi er mælt fyrir um breytingar á ákvæðum tekjuskattslaga, sem fjalla um þær upplýsingar sem senda ber skattyfirvöldum reglulega og án kvaðningar. Breytingarnar miða að því að bæta skil banka og fjármálafyrirtækja á upplýsingum um skuldabréf, afleiðuviðskipti, eignastýringu, milligöngustarfsemi og fleira. Á nýliðnu þingi voru samþykkt lög um breytingar á tekjuskattslögum um upplýsingaskyldu banka og fjármálafyrirtækja um inneignir og innstæður og greidda vexti og afdregna staðgreiðslu en ekki var gert skylt að upplýsa jafnframt um eignir viðskiptamanna í sjóðum sem fjármálafyrirtæki hefur á sinni hendi. Rétt þykir nú að taka skrefið til fulls þannig að upplýsingaskyldan taki einnig til útlána banka og fjármálafyrirtækja í árslok og greiddra vaxta á árinu. Með breytingu þessari verður þannig einnig skylt að upplýsa um allar eignir viðskiptamanna bankanna, hvort heldur fjármunir þeirra eru geymdir á almennum bankareikningum, verðbréfasjóðum eða á annan hátt. Breytingin nær þannig til upplýsinga um tekjur af hvers kyns fjármálagerningum sem og milligöngustarfsemi sem fjármálafyrirtæki annast.

Breytingar þessar þjóna margvíslegum tilgangi. Má fyrst nefna bein áhrif á skattlagningu þar sem skuldir og vaxtagjöld af lánum til íbúðakaupa eru til að mynda ráðandi forsenda við ákvörðun vaxtabóta og sömuleiðis hafa eignir, þar á meðal peningalegar eignir, áhrif á þær. Þá teljast eftirgefnar skuldir einstaklinga og fyrirtækja almennt til skattskyldra tekna. Breytingarnar þjóna jafnframt eftirlitstilgangi. Eignakaup og fjármögnun þeirra eru tíðast skýrð með lánum ef framtaldar tekjur og eignir hrökkva ekki fyrir kaupum og með upplýsingum um lán á framtölum er unnt að bera þær með einföldum hætti saman við upplýsingar sem lánveitandi eða skuldareigandi lætur skattyfirvöldum í té. Þá má nefna að með upplýsingum um lán, skuldir og vaxtagjöld einstaklinga mun verða unnt að forskrá nær allar upplýsingar sem til þarf fyrir framtal flestra einstaklinga sem ekki stunda atvinnurekstur. Upplýsingar um lán og skuldir atvinnurekstrarins munu þó fyrst um sinn ekki nýtast til áritunar á skattframtöl lögaðila og manna í sjálfstæðri starfsemi en verða ómetanlegt tæki við mat á trúverðugleika skattskila hvað varðar tekjur og eignamyndun.

Í fimmta lagi eru lagðar til breytingar á ákvæði tekjuskattslaga, sem fjallar um skyldu aðila til að veita skattyfirvöldum upplýsingar þegar eftir þeim er leitað. Breytingarnar eru tvíþættar. Annars vegar er kveðið á um skyldu fjármálastofnana sem starfa hér á landi til að veita upplýsingar um viðskipti sem íslenskir skattaðilar hafa við útibú þeirra erlendis eða dótturfélög þar. Fjármálafyrirtæki hafa komist undan því að skila upplýsingum um tekjur sem skattskyldar eru á Íslandi með því að flytja bankainnstæður og fjárfestingaeignir í eigu Íslendinga yfir í dótturfélög erlendis. Þar með hefur lokast fyrir upplýsingagjöf til íslenskra skattyfirvalda. Grunur leikur á að eignarhald í félögum hafi verið falið með því að skrá félög á Bresku Jómfrúreyjum eða í öðrum lágskattaríkjum og tekjum þar með skotið undan réttmætri íslenskri skattlagningu. Lagt er til, eins og gerist víða erlendis, að á grundvelli samstæðuréttar verði íslensk móðurfélög ábyrg fyrir að veita upplýsingar um viðskipti sem aðilar skattskyldir á Íslandi hafi átt við dótturfélög og útibú sem móðurfélagið á eða rekur erlendis. Hins vegar er lagt til að þeir sem starfa við skattaráðgjöf og fjármálaþjónustu verði skyldaðir til að halda lista yfir viðskiptavini sína varði þjónustan beina eða óbeina eignaraðild að félagi, sjóði eða stofnun sem skráð er erlendis eða eignir þar. Enn fremur er svo lagt til að tekin verði af öll tvímæli um að ákvæði í öðrum lögum um þagnar- eða trúnaðarskyldu víki ávallt fyrir ákvæðum þessara laga. Hafa ber í huga að þær upplýsingar sem hér um ræðir eru ekki fjárhagsupplýsingar heldur skrá um þá aðila sem hafa verið í viðskiptum eða þjónustu sem varðar félög þeirra eða eignir erlendis.

Þá er í frumvarpinu lagt til að breytingar sem gerðar voru á tekjuskattslögum á síðasta haustþingi og vörðuðu söluhagnað eigna hjá einstaklingum komi til framkvæmda við álagningu tekjuskatts á árinu 2010 í stað 2009 til að koma í veg fyrir mögulega afturvirkni.

Herra forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.

Mér er ljóst að ég er að ætlast til umtalsverðrar vinnu af hv. nefnd því að hér er um allviðamikið mál að ræða og þó kannski ekki í eðli sínu því að hér er fyrst og fremst um að ræða upptöku á alþjóðlega þekktum, þróuðum skattareglum sem ekki á að þurfa að vefjast mikið fyrir okkur Íslendingum að taka upp í okkar skattarétt eins og öðrum og þó fyrr hefði verið.