136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[16:24]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Fyrri hluti þessarar umræðu fór fram í gær, eins og við vitum, og hefur ekki alveg verið samfella í umræðunni vegna anna á þinginu. En mig langar að byrja á því að tala um þetta mál almennt áður en ég ræði um einstaka útfærslur sem þarna koma fram.

Ég vil segja í upphafi að ég tek undir þau sjónarmið að æskilegt sé að efla persónukjör í þingkosningum. Ég held að það séu svo sem margar leiðir færar í því efni og er áhugi meðal stjórnmálamanna og í þjóðfélaginu almennt á að gera breytingar til að styrkja persónukjör.

Þau miklu mótmæli sem urðu fyrir utan þinghúsið í vetur hafa áreiðanlega ýtt við mörgum hér innan dyra um að knýja fram breytingar á kosningalöggjöfinni núna og raunar stjórnarskránni einnig og á morgun munum við taka fyrir breytingar á stjórnskipuninni sem er frumvarp frá stjórnarflokkunum og Framsóknarflokknum. Ég tel að meginástæðan fyrir því að þessi mál koma svona bratt inn í þingið núna séu mótmælin og sú ólga sem varð í samfélaginu í kjölfar hrunsins.

Ég vil að menn hugsi vel um mál af þessum toga sem varða breytingar á því hvernig við kjósum fulltrúa okkar, hvernig við veljum fólk á listum, hvernig við umgöngumst stjórnarskrána og hvernig við breytum stjórnarskránni. Allir þessir þættir eru hornsteinar og grundvöllur lýðræðisskipunar okkar. Mér finnst að við eigum að fara með gát þegar við gerum breytingar og mér finnst að við þurfum að hafa tíma til að hugsa þær. Það þarf að hafa ákveðna ró yfir slíkum breytingum og mér líkar ekki að hafa of mikinn asa á þeim.

Þess vegna verð ég að segja að ég skil ekki alveg af hverju menn vilja afgreiða málið svona hratt. Ég hefði kosið að við byrjuðum þessa umræðu og tækjum hana svo aftur upp að loknum kosningum og lykjum henni á komandi vetri.

Þetta mál mun fara að lokinni þessari umræðu inn í allsherjarnefnd þar sem það verður tekið til athugunar og ég á von á því að þar komi fram ýmis sjónarmið í málinu. Það fær vonandi vandaða og góða umfjöllun.

Það liggur ljóst fyrir að í Sjálfstæðisflokknum er mjög ríkt persónukjör í prófkjörum. Ég hygg raunar að prófkjörsleiðin sem farin er á Íslandi sé ekki algeng í öðrum löndum. Vegna þess að menn segja að Sjálfstæðisflokkurinn sé svo óskaplega mikið á móti þessu frumvarpi og svo mikið á móti persónukjöri, vil ég taka fram að prófkjör Sjálfstæðisflokksins eru gríðarlega fjölmenn og í raun og veru alveg einsdæmi hér á landi. Ég held því fram að persónukjör í þeim flokki sé mjög verulegt nú þegar.

Það frumvarp sem liggur fyrir er dálítið ruglingslegt að mínu mati. Ég hef áhyggjur af því að þar sé verið að leggja til fleiri en eina leið. Þar er bæði talað um raðaða lista og óraðaða lista, að flokkar eigi að geta ákveðið hvort þeir hafi raðaðan lista eða óraðaðan lista og gangi til kosninga með mismunandi fyrirkomulag fyrir framan sig.

Það er meira að segja svo að það getur verið mismunandi á milli kjördæma. Það finnst mér slæmt. Ég hefði kosið að við næðum samkomulagi um að ein leið yrði valin. Ef nota á óraðaðan lista á það að vera þannig en það á ekki að vera tilviljunum háð hvort hann er óraðaður eða ekki, eins og mér sýnist vera um að ræða hér. Ég er ekki hlynnt því að um tvöfalt fyrirkomulag sé að ræða.

Í kosningalögunum er nú þegar ákvæði um að hægt sé að breyta röðun á lista, að strika út fólk á lista og raða upp á nýtt þannig að þetta er ekki alveg glæný hugmynd í kosningafyrirkomulagi okkar. Þetta er í lögunum en einhvern veginn hefur mér fundist lítið fara fyrir því í umræðunni. Ég held að það hafi bara ekki verið nefnt og mér finnst það dálítið merkilegt.

Í greinargerðinni er fyrst og fremst fjallað um hvernig staðan er í öðrum löndum og síðan er farið nákvæmlega yfir reiknireglur. Mér finnst þessi greinargerð ekki hjálpa manni óskaplega mikið. Ég sé fyrir mér að við í allsherjarnefnd þurfum að fá marga gesti til okkar til að útskýra málið en ég vil þó nefna að það eru ýmsar leiðir nothæfar í þessu. Svíar nota ákveðna leið sem er þannig að maður getur krossað við nafn á lista til að hafa áhrif á persónukjör. Þá er gerð breyting þannig að maður getur annars vegar kosið lista og hins vegar getur haft með persónulegt atkvæði. Það er ein leið sem hægt er að skoða. Þetta er kallað hálft skref, mjúk leið að persónukjöri. Sumir ganga miklu lengra, t.d. Finnar, en aðrir ganga ekki eins langt í þessu efni.

Í greinargerðinni er talað um að við séum með lokaða flokkslista og sagði hv. þm. Lúðvík Bergvinsson við 1. umr. að við værum í hópi landa eins og Bólivíu, Búlgaríu, Ekvador og Gíneu. Hann lét í veðri vaka að það væri ekki góður félagsskapur fyrir Íslendinga og þyrftum við að komast úr þessum hópi til annarra Evrópuþjóða sem eru með persónukjör, svo sem Austurríki, Belgía, Danmörk o.s.frv.

Mér finnst ekki rétt að tala svona og ég skil ekkert í hv. þingmanni gera það. Ég vil svara því á þann veg að það er ákveðið persónukjör þegar í gildi hér. Prófkjörin eru það. Það eru ákveðnar leiðir í kosningalögunum. Það er ekki nefnt í þessari greinargerð og hefði þurft að koma skýrar fram að mínu áliti.

Ég spurðist fyrir um það í upphafi umræðunnar í gær hvernig flutningsmenn líta á samspil þessa frumvarps við 31. gr. stjórnarskrárinnar og 6. mgr. hennar sem kveður á um að breytingar á kjördæmamörkum og tilhögun á úthlutun þingsæta sem mælt er fyrir um í lögum verði aðeins gerðar með samþykki 2/3 atkvæða á Alþingi. Það þýðir að þegar menn gera breytingar eins og þessar er um að ræða breytingar sem hafa mikil áhrif á þingsæti og þá þurfum við aukinn meiri hluta. Mér finnst eðlilegt að svo sé. Mér finnst eðlilegt þegar menn hlutast til um svona verkefni að það sé aukinn meiri hluti á þinginu. Hins vegar skildi ég hv. þm. Lúðvík Bergvinsson svo í gær að mikil áhöld væru um það og að hann væri alls ekki viss um að það þyrfti aukinn meiri hluta, heldur væri nóg að hafa einfaldan meiri hluta í þessu efni.

Það er mál sem þarf að rannsaka. Þetta verðum við að vita og mun allsherjarnefndin auðvitað rannsaka þetta og kalla til sín menn til þess að fara yfir málið. Ég felli mig ekki við það sem fram kom í gær að þetta gæti komið í ljós með atkvæðagreiðslu með frumvarpinu. Það getur aldrei gengið. Við verðum að vita þetta fyrir fram. Ef það er samdóma álit manna, sem ég hygg að muni koma í ljós, að 2/3 þurfi er enn þá mikilvægara að betri samstaða náist á þinginu um þessar breytingar. Þá er enn þá mikilvægara að við í stjórnarandstöðunni höfum meiri aðkomu að málinu og að málið fái að þroskast með eðlilegum hætti.

Ég skil satt að segja ekki af hverju liggur svona óskaplega á. Við höfum rætt um mál í dag sem skipta að mínu áliti verulega miklu fyrir þá atburði átt hafa sér stað og það ástand sem ríkir í landinu. Við vorum t.d. að ræða frumvarp um breytingar á virðisaukaskatti sem skiptir verulega miklu máli fyrir fyrirtækin og atvinnulífið í þessu landi. Það er mál sem við sjálfstæðismenn styðjum heils hugar. Við höfum sagt það allan tímann að við munum styðja þau mál sem munu hjálpa til við að koma atvinnulífinu í gang og fyrirtækjunum í landinu.

Þess vegna finnst mér svo mikill óþarfi að nýta þennan mikilvæga tíma fram að kosningum til þess að tala um mál sem liggur ekki svo óskaplega mikið á að afgreiða. Við erum komin af stað í kosningabaráttu. Það er sjálfsagt að leggja þetta mál til kynningar, skoða það og ræða stuttlega og leyfa því síðan að þroskast í sumar og taka það aftur upp í haust, þá með meira samkomulagi á milli flokkanna.

Ríkisstjórnin leggur mikla áherslu á að setja á fót stjórnlagaþing og við munum ræða það á morgun. Ég held að það sé ýmislegt þar sem vert er að skoða. En ef það er skoðun ríkisstjórnarflokkanna að það þurfi að samþykkja slíkt stjórnlagafrumvarp núna til þess að breyta stjórnarskránni, af hverju gerum við þá breytingar á stjórnarskránni í millitíðinni? Af hverju á að breyta kosningalögunum núna? Af hverju gerum við það ekki bara í einu lagi þegar búið er að kjósa? Af hverju liggur okkur svona óskaplega mikið á?

Ef ég svara eigin spurningu held ég að það sé vegna þess að sú mikla hreyfing sem varð hér fyrir utan húsið og ég nefndi í upphafi, hafi haft þau áhrif að stjórnarflokkarnir telja sig knúna til þess að svara því strax með einhverjum hætti.

Ég segi þá á móti: Við getum alveg gert það með því að leggja svona frumvarp fram og bíða svo. Við getum ekki farið af stað með frumvarp sem ekki er almenn samstaða um og við getum ekki haft mörg vafaatriði í því og samþykkt það svona vanbúið eins og mér finnst það vera. Ég tek það aftur fram mér finnst alveg óþarft að bjóða kjósendum í landinu upp á að vera með tvöfalt kerfi.

Svo getum við líka horft á þetta út frá sjónarmiðum landsins í heild. Kjördæmin eru mjög sérkennileg mörg hver. Landsbyggðarkjördæmin gríðarlega víðfeðm og Reykjavík er skipt í tvennt. Hvaða áhrif hefur svona breyting á jafnvægi í landinu? Hvaða áhrif hefur það t.d. á Suðurkjördæmið að fara í persónukjör í kosningum? Er hætta á því að allir þingmennirnir komi af þéttbýlisstöðunum? Er hætta á því að Selfoss og Reykjanesið hafi alla þingmenn? Gæti það gerst að sveitirnar fyrir austan fengju engan málsvara nema neðarlega af listanum? Hvernig ákveðum við hvernig við heyjum kosningabaráttuna? Hvernig ákveðum hverjir fara á þessa óröðuðu lista? Er það gert með því að menn auglýsi sig, að mest geti 100 menn boðið sig fram? Á síðan að raða? Hvernig verður dreifingunni háttað? Eða eru það kannski flokkarnir sem munu koma með einhvers konar lista fyrst? Erum við þá ekki hvort sem er farin að velja? Allt eru þetta spurningar sem við þurfum að leita svara við í nefndinni.

Hver leiðir þennan lista þegar kosningabaráttan hefst með allt fólkið á óröðuðum lista? Hvert á þetta fólk að fara? Við hvaða kjósendur ætla frambjóðendur að tala? Ætla sumir að vera á Höfn í Hornafirði en aðrir í Keflavík? Er þá ekki hætta á því að þeir sem eru í Keflavík verði kosnir en ekki þeir sem eru á Höfn í Hornafirði af því að það eru svo fáir þar?

Þetta eru allt sjónarmið sem við þurfum að skoða. Við þurfum ákveðinn tíma til að gera það og við skulum ekki flýta okkur of mikið. Ég heyrði það í gær og las það í Morgunblaðinu eða í einhverju blaði í dag að sjálfstæðismenn væru þvert á móti hugmyndunum. Það er ekki svo en við viljum hins vegar fá að skilja málið og ræða það og átta okkur á því hvaða afleiðingar það hefur. Þær afleiðingar eru ekki alveg skýrar í mínum huga og ég hygg að þannig sé það með marga.

Ég gat nú ekki betur heyrt og mér sýnast vera áhöld um það hjá mörgum stjórnarsinnum hvernig við ætlum að túlka einstaka hluti og hvaða áhrif þetta muni hafa. Þess vegna segi ég: Við skulum vanda okkur við þetta. Við skulum ekki taka þetta mál fram yfir þau brýnu mál sem liggja fyrir þinginu.

Hæstv. fjármálaráðherra lagði nýlega fram frumvarp sem snýr að séreignarsparnaði. Það er mjög mikilvægt mál. Við þurfum að tala um það en ekki þetta núna. En við getum hins vegar lagt það fyrir nefndina til að skoða þetta og fengið til okkar gesti og tekið það aftur upp í haust. Við getum prófað það í sveitarstjórnarkosningunum. Það eru sveitarstjórnarkosningar á næsta ári og er líklega mismunandi hvernig sveitarstjórnarmenn líta á það. En það er kannski ekkert vitlaust að gera prufu á svona kerfi í slíkum kosningum en ekki fara beint með það í alþingiskosningar.

Aðalatriðið er: Öll mál sem snúa að kosningalöggjöfinni, stjórnskipuninni, hornsteinum íslenskrar skipunar, þurfa ákveðinn tíma. Ég neita því ekki að oft hefur það tekið of langan tíma en fyrr má nú vera. (Forseti hringir.)