136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[17:04]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þessi hv. þingmaður sem hér talaði síðast, Sturla Böðvarsson, var eitt sinn forseti Alþingis, fram til 1. febrúar sl. Svo kemur hann núna sem almennur þingmaður og hefur áhyggjur af því að það þurfi að skoða mál það sem hér er til umræðu nokkuð betur vegna þess að einhver hafi sagt að það kynni að brjóta í bága við stjórnarskrá. Má ég rifja upp og biðja hv. þingmann að rifja upp viðbrögð sín við þeim varnaðarorðum sem flutt voru á Alþingi 11. desember sl. þegar sýnt var að það var verið að brjóta stjórnarskrána með því að taka af mönnum lögvarðan rétt til þess að fara í mál við gömlu bankana.

Við þessu var varað í ræðustól á Alþingi. Við þessu var varað í nefndarálitum. Við þessu var varað á skrifstofu forseta Alþingis eins og upplýst hefur verið hér í þingsölum þegar hv. þm. Atli Gíslason gekk á fund þess sem þá var forseti og hér talaði áðan. Og hvað skyldi þessi hv. þingmaður hafa gert til þess að gæta virðingar Alþingis þegar stjórnarskráin er annars vegar? Nákvæmlega ekki neitt. Svo líða 2 mánuðir og 9. febrúar sl. fellur dómur í héraðsdómi: Þessi lög brjóta gegn stjórnarskránni. Þess vegna er það, frú forseti, að nú er verið að reyna að bæta fyrir þessi afglöp sem þáverandi forseti Alþingis átti auðvitað að stöðva en hafði ekki manndóm í sér til.