136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[18:00]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Ég held, forseti, að í hverjum manni takist á eitthvað sem Frakkar mundu kalla „les modernes“ og „les anciens“ og stundum komi þeir tímar að það sé rétt að nýjungamaðurinn, framfaramaðurinn eða hvað við viljum kalla það, hafi betur og stundum komi þeir tímar að það sé gott að halda heldur fastar utan um íhaldsmanninn.

Núna held ég að séu þeir tímar að við eigum að vera óhrædd við að stíga skrefið ef við eigum að vera hugrökk. Og ef við ætlum ekki að breyta þeim hlutum sem við núna höfum á borðinu að breyta, ef við ætlum ekki að gera það núna, þá spyr ég sjálfan mig: Hvenær á að gera það? Við kunnum söguna, ég og hv. þm. Birgir Ármannsson sem er vel að sér í stjórnarskrármálum og kosningalöggjöf, og vitum að það hefur gengið mjög erfiðlega að breyta þessum hlutum og þeim er yfirleitt ekki breytt fyrr en í óefni er komið. Ég tel að núna sé rétti tíminn til að stíga það skref.

Um prófkjör og kosningar er það að segja að ég ósköp einfaldlega treysti á þroska framboðanna og endurtek að ég held að óeining og sundurlyndi meðal frambjóðenda á sama lista, ef þeir eru á barkanum hver á öðrum ef svo má segja, mundi skemma fyrir þeim gagnvart kjósendum. Það mundi minnka kjörfylgi þeirra og þeir ættu þá ekki annað skilið en það að aðrir kæmust að sem sýna meiri þroska, meiri samstöðu og virða meira málstað sinn en persónulegan metnað.