136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[18:06]
Horfa

Ellert B. Schram (Sf):

Herra forseti. Ég hleyp hér nánast í skarðið fyrir 1. flutningsmann þessa frumvarps, hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, sem hefur fjarvistarleyfi í dag og hefur ekki getað verið viðstaddur þessa umræðu. Þar sem ég geri ráð fyrir að nú sé að renna upp að mælendaskrá sé lokað og hún sé tæmd, þá vildi ég aðeins í niðurlagi þessarar umræðu fara nokkrum orðum um frumvarpið án þess að það verði í löngu máli gert.

Þetta frumvarp til laga, um breytingar á lögum um kosningar, er flutt af fulltrúum fjögurra flokka, þ.e. Samfylkingar, Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Frjálslynda flokksins. Andstaðan gagnvart frumvarpinu hefur fyrst og fremst og nær eingöngu komið úr röðum Sjálfstæðisflokksins. Helstu rök talsmanna þess flokks eru þau að þetta beri of brátt að og það þurfi að bíða og skoða og átta sig betur á frumvarpinu og afleiðingum þess. Út af fyrir sig eru það réttmætar athugasemdir en þá verða menn líka að átta sig á að þetta er ekkert venjulegt ástand sem við upplifum og það er kannski fyrst og fremst ástæðan fyrir því að þetta frumvarp er flutt núna.

Frumvarpið er afsprengi þess hruns sem átti sér stað í þjóðfélaginu og þess áfalls sem öll þjóðin hefur orðið fyrir. Spurt hefur verið hver beri sökina á hruninu og hvar sökudólgarnir séu. Þó að ég ætli ekki að fara að benda á neinn slíkan þá liggur auðvitað ábyrgðin einhvers staðar, ekki endilega hjá einhverri tiltekinni stofnun eða einhverjum einum eða tveimur einstaklingum heldur er um að ræða pólitíska ábyrgð sem sést best á því að ýmsir alþingismenn hafa undanfarna daga beðist opinberlega formlegrar afsökunar vegna þess að þeir hafi kannski ekki staðið vaktina. Þeir hafi verið of sjálfumglaðir og værukærir og eftir atvikum flokkshollir.

Í raun og veru eru menn að segja með þessum afsökunarbeiðnum að þeir hafi látið þetta yfir sig ganga af því að þeir treystu á að flokkurinn þeirra mundi fylgjast með þessu. Þeir eru að viðurkenna ráðherraræðið og að þeir hafi verið leiðitamir í þingstörfum sínum gagnvart forustu viðkomandi flokka. Er ég þá ekki að varpa sök eða tala um einhvern sérstakan flokk í því sambandi.

Þessar játningar fela það raunverulega í sér að fólk er að viðurkenna það sem hefur líka vakið reiði á götum úti, að flokkarnir hafi haft of sterk tök bæði í þinginu og hjá framkvæmdarvaldinu. Gegn þessu flokksræði hafa menn verið að bregðast, enda held ég að óhætt sé að segja að undirtektir undir það séu hjá þjóðinni allri. Hún reis upp gegn þessu flokksræði og hefur gert kröfur um að brjóta það niður. Þingmenn sem hér sitja hafa í raun og veru líka viðurkennt þennan sannleika og þessa staðreynd.

Í þessu andrúmslofti og við þessar kringumstæður er frumvarpið flutt, til að bregðast við og bjóða upp á aðrar aðferðir til að kjósa fólk inn á Alþingi. Menn eru að bjóða flokksræðinu byrginn og þegar gerð er tillaga um persónulegt kjör í þingkosningum í þá átt sem þetta frumvarp gerir ráð fyrir að þá er verið að svara þessu kalli.

Það má að sjálfsögðu endalaust velta því fyrir sér hvort þetta frumvarp sé nægilega þroskað. Ég held hins vegar að það sé afar vel unnið og sé raunhæf aðferð til að taka upp nýjar aðferðir til kjörs til Alþingis ef menn eru á annað borð sammála um að breytinga sé þörf. Hér er um það að ræða að boðið er upp á það að flokkar geti bæði haldið uppi gamla fyrirkomulaginu með að stilla upp röðuðum lista og svo valið hinn kostinn að stilla upp óröðuðum lista og þá er það bara val hvers og eins flokks hvaða aðferð hann notar.

Uppstilling óraðaðra lista er engin nýlunda. Það hefur verið prófað og reynt í öðrum löndum, kannski með misjöfnum árangri. Þetta er viðurkennd aðferð þar sem jafnvel er gengið enn þá lengra og kjósendum boðið upp á að krossa við lista A en merkja svo kannski við frambjóðendur á lista B. Þannig er gengið mun lengra en gert er þó í þessu frumvarpi.

Ég lýsi stuðningi mínum við að þetta frumvarp nái fram að ganga. Ég reikna með að það verði vandlega skoðað í nefnd og þar verði svarað ýmsum þeim efasemdum og spurningum sem fram hafa komið í þessari umræðu og eiga eftir atvikum allar meira og minna rétt á sér. Grundvallaratriðið er að þarna er verið að opna fyrir leið til að nálgast kjósendur og draga úr flokksræðinu.

Fjórir þingflokkar af fimm standa að frumvarpinu. Sjálfstæðisflokkurinn virðist hafa miklar efasemdir um að þetta sé tímabært en þá er svarið einfaldlega það að Sjálfstæðisflokkurinn getur einn og sér ákveðið að halda sig við gamla fyrirkomulagið, að stilla upp röðuðum lista og gera þá kröfu til kjósenda sem vilja krossa við Sjálfstæðisflokkinn að þeir samþykki þá uppröðun sem flokkurinn hefur ákveðið, annaðhvort með uppstillingum eða með prófkosningum. Það verður þá ákvörðun hvers og eins flokks. Nú hafa flestir ef ekki allir stjórnmálaflokkarnir boðað til forkosninga og prófkosninga og jafnvel þó að slíkar kosningar fari fram getur hver og einn flokkur ákveðið fyrir sig hvort hann heldur sig við þá listauppstillingu sem samþykkt verður í slíkum kosningum eða hvort hann breyti því og bjóði óraðað.

Mér finnst frumvarpið tímabært vegna þess að það er svar við þeim viðbrögðum sem hrunið hefur leitt af sér í þjóðfélaginu. Kjarni málsins er sá að verið er að bregðast við og gegn flokksræði og færa völdin til kjósenda í vaxandi mæli og að því leyti er verið að gera þá kröfu til alþingismanna og þeirra sem veljast inn á þing að þeir láti hvorki flokkshollustuna né ráðherraræðið stjórna sínum störfum og standi sína vakt og séu ekki eins leiðitamir og fyrirrennarar þeirra hafa sumir hverjir viðurkennt að þeir voru.

Herra forseti. Ég held að ég þurfi ekki að hafa þessa ræðu lengri. Ég tel að hér sé um að ræða hið ágætasta mál, frumvarp sem hefur verið vel unnið og ég mælist til þess að það fái góða meðferð og athugun í nefnd og verði síðan látið á það reyna hvort það náist fram sem samþykkt lög áður en þessu þingi lýkur.