136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[18:15]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Til að fyrirbyggja allan misskilning vil ég taka fram að mér finnst áhugavert að skoða hugmyndir um hvernig auka megi vægi persónukjörs í sambandi við kosningar. Ég held að okkur þingmönnum beri skylda til að skoða mismunandi kosti í því sambandi og tel að það hefði átt að gera áður en komið var fram með frumvarp á elleftu stundu, ef svo má segja, og mönnum stillt upp við vegg og sagt: Takið þetta og samþykkið eða verið á móti. Ég held að það hefði verið miklu eðlilegri aðdragandi að máli af þessu tagi.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefndi í sambandi við flokksræðið get ég vel tekið undir þá hugsun sem kom fram í orðum hans að í sjálfu sér sé jákvætt að auka vægi og ábyrgð þingmanna sjálfra, þá hugsanlega með einhverri útfærslu á persónukjöri og draga þannig úr flokksræði.

Í flokki hv. þm. Ellerts B. Schrams er flokksræðið með þeim hætti að prófkjör er haldið og tilkynnt á blaðamannafundi tveggja stjórnmálamanna hverjir lendi í fyrsta, öðru og þriðja sæti. Þannig að hv. þingmenn verða svolítið að líta í eigin barm þegar þeir tala um flokksræði.

Hv. þingmaður ætlaði ekki að undanskilja neinn flokk og því held ég að hann hafi að hluta til verið að hugsa um sinn eigin flokk í þessu sambandi.

Athugasemdir mínar og margra annarra sjálfstæðismanna lúta fyrst og fremst að því að ekki eigi að koma með breytingar á kosningalögunum (Forseti hringir.) á elleftu stundu, heldur undirbúa þær vel og í sátt.