136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[18:19]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi komið að kjarna málsins þegar hann talaði um að það ástand sem hefur skapast í þjóðfélaginu á undanförnum mánuðum kalli á ýmsar aðgerðir og breytingar. Ég held að þetta frumvarp um breytingar á kosningalögum sé mjög aftarlega í röðinni þegar horft er til þeirra verkefna sem nauðsynlegt er að grípa til bæði hér á þingi og á vettvangi ríkisstjórnar.

Ég er þeirrar skoðunar að á þeim skamma tíma, í raun og veru örfáum þingdögum, sem eftir eru fram að kosningum sé miklu mikilvægara að vinna að verkefnum sem lúta að hagsmunum fyrirtækja og heimila og tryggja að hjól atvinnulífsins stöðvist ekki. Tryggja að hér verði ekki fjöldagjaldþrot og fjöldaatvinnuleysi. Ég held að það séu miklu mikilvægari verkefni sem ættu frekar að vera í forgangi en breytingar á kosningalögunum.

Varðandi það hvort nú sé rétti tíminn til breytinga er ég þeirrar skoðunar að ef, eins og ég kom að í andsvari við hv. þm. Mörð Árnason hér áðan, raunverulegur áhugi er hjá kjósendum og stjórnmálamönnum til að gera breytingar í þessa veru með því að auka með einhverjum hætti vægi persónukjörs og gera hugsanlega aðrar breytingar sem lúta að stjórnskipun landsins held ég að sá áhugi verði ekki dottinn niður í maí eða júní. Ég held að sá áhugi hljóti að lifa og ég spyr hvort ástæða sé til að taka ákvarðanir í þessum efnum, hvort sem er um kosningalög eða stjórnskipan, í tilfinningaróti eftir erfiða reynslu og hrun á fjármálamarkaðnum. Er rétt að taka slíkar ákvarðanir af óyfirveguðu máli með skömmum undirbúningi og eftir skamman tíma hér í þinginu?