136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[18:22]
Horfa

Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að auðvitað þarf þingið að taka á þeim stóru málum sem snúa að heimilunum og atvinnulífinu. Það er líka gert og hér hafa verið umræður og afgreiðslur á ágætum málum í allan dag og verða næstu daga.

En þetta er ekki spurning um annaðhvort/eða heldur um bæði/og að sinna þeim bráðaúrræðum sem snúa að heimilum og fyrirtækjum og líka að bregðast við þeirri lýðræðislegu kröfu sem gerð er til Alþingis og stjórnmálaflokkanna um breytingar á vinnulagi og skipulagi. Ég held að ekki þurfi að setja þetta í einhverja forgangsröð. Þetta eru allt saman mjög mikilvæg verkefni. Við höfum alveg tíma og þrek til þess að sinna hvoru tveggja.

Ég geri ekki lítið úr því að endurskoða þurfi lýðræðisreglurnar og stjórnmálin af jafnmikilli alvöru og við tökumst á við erfiðleika sem snúa að heimilum og fyrirtækjum. Það er krafa um það og nauðsyn á því að við breytum hugsunarhætti okkar og aðkomu að þeim störfum sem við höfum tekið að okkur þannig að stjórnmálamenn standi vaktina og láti ekki svona ófarir og ósköp yfir sig ganga, svo lengi sem við sjálfir lifum og þjóðin heldur sjálfstæði sínu.