136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[18:53]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Það er nokkuð liðið á þessa umræðu og fer að sjá fyrir endann á henni. Það undrar mig mjög þegar við ræðum mál af þeim toga sem hér er til umræðu, sem liggur svona óskaplega mikið á af hálfu stjórnarflokkanna að koma í gegn, hversu lítill áhugi er á því af þeirra hálfu. Ég hygg að af hálfu Framsóknarflokksins hafi t.d. einungis einn hv. þingmaður tjáð sig og ég get kannski nefnt 1–2 af hinum flokkunum. Þeir sem hafa verið í salnum hafa flestir verið við önnur störf en þau að hlusta á þessa umræðu og meira að segja gekk það svo langt hér í dag að þingmenn Vinstri grænna lögðu sig í framkróka við að fara í persónulegt stríð við hv. þm. Sturlu Böðvarsson í staðinn fyrir að ræða þetta mál sem svo mikið liggur á að koma í gegn.

Þetta áhugaleysi kemur mér mjög á óvart. Meira að segja fulltrúar í allsherjarnefnd hafa varla getað setið undir þessari umræðu. Samt er ætlast til þess að við tökum málið fyrir í nefndinni og eftir því sem ríkisstjórnarflokkarnir segja liggur óskaplega mikið á að koma þessu öllu á fyrir vorið svo kjósendur sem eiga að kjósa 25. apríl geti valið á lista eftir algjörlega nýjum leiðum sem kjósendur hafa ekki hugmynd um hverjar eru.

Engin umræða hefur farið fram um þetta í landinu, það hefur enginn talað um þetta af þeim mikla þunga sem mér skilst að hafi allt í einu kviknað í ríkisstjórnarherbergjunum núna skyndilega. Hvaðan kemur þessi óskaplega mikla þörf fyrir að reka þetta mál hér áfram þegar menn telja að það þurfi að bjarga — og það þarf að gera — atvinnulífinu í landinu? Af hverju vilja menn eyða þá orkunni í að standa í þessu? Svo þegar til á að taka er enginn hér, það er enginn við umræðuna, 2–3 manneskjur sem eru meira og minna á leiðinni út. (Gripið fram í.) (Gripið fram í.) Það kemur mér mjög á óvart, satt að segja, (Gripið fram í.) mjög á óvart að svo sé.

Ég held að við eigum að bera þá virðingu fyrir kosningakerfinu og líka íbúum í þessu landi að það eigi sér stað einhver umræða um þetta nýja kosningakerfi sem menn eru að fara af stað með núna. Þegar maður skoðar svo þetta frumvarp sem er ekki mjög — ja, greinargerðin gefur manni ekki mikla vísbendingu um tilganginn með frumvarpinu — kemur reyndar fram að þar sem einhvers konar svona aðferð hefur verið valin hefur heldur dregið úr þátttöku, þ.e. þessi aðferð er ekki valin nema að hluta til. Þetta hefur ekkert endilega gefist vel í þeim löndum sem miðað er við þannig að mig undrar að menn skuli vilja fara þessa leið.

Svo á morgun ætlum við að tala um stjórnarskipunina. Ég efast um að þar verði nokkur viðstaddur heldur. (Gripið fram í: Jú, ég.) Það er alveg furðulegt (Gripið fram í.) að svona skuli vera, að þegar verið er að tala um breytingar á íslensku stjórnarskránni, herra forseti, skuli stjórnarsinnar ekki mega vera að því að mæta til þings og ræða þessi mál, eru bara að gera eitthvað allt annað. (Gripið fram í: Í prófkjörum.) Já, maður spyr sig hvað um sé að vera. (ÁI: Eru stjórnarandstæðingar hér eitthvað meira?)

Í þessari umræðu hafa örfáir þingmenn af hálfu stjórnarsinna tekið þátt. Fyrst og fremst hefur þessi umræða verið af hálfu sjálfstæðismanna sem hafa kallað eftir skoðanaskiptum. Maður hefur reynt að varpa fram spurningum til stjórnarsinna en þeir hafa ekkert hirt um að svara þeim. Það eina sem fram hefur komið er einhver skætingur út í fólk um eitthvað sem kemur málinu bara ekkert við og er ekkert um það mál sem við erum að ræða hérna. Það skiptir máli að við vöndum okkur við þetta.

Ég sagði í ræðu minni í dag að það væri sjálfsagt og eðlilegt að velta fyrir sér hvernig best væri að koma fyrir kosningum til Alþingis og sveitarstjórna. En við skulum gera það af ákveðinni ró, við skulum reyna að ná einhverju samkomulagi um það hvernig til á að takast. Það liggur alveg fyrir að það þarf tvo þriðju atkvæða hér á þingi til að koma þessu frumvarpi hér í gegn, það liggur alveg fyrir, þetta hafa menn skoðað, þannig að það verður ekkert gert nema menn komi sér að því að tala við stjórnarandstöðuna hér í stað þess að meðhöndla hana bara eins og hún sé eitthvert skraut, eitthvert punt hér og ekki til nokkurs skapaðs hlutar. Og það eru flokkar sem eru búnir að tala um hversu illa var (Forseti hringir.) farið með þá þegar þeir voru í stjórnarandstöðu, mér þykir ýmislegt hafa breyst síðan þá.