136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

störf þingsins.

[10:36]
Horfa

Jón Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sturlu Böðvarssyni fyrir að vekja athygli á þessu máli. Kosningaloforð eiga menn að reyna að halda, hv. þm. Guðbjartur Hannesson, og hefur verið eitt af forgangsmálum Samfylkingarinnar. Samfylkingin hefur möguleika og tök á því að breyta þessu en ekki bólar á því að gera eigi neinar breytingar.

Jú, það var ráðist í Hvalfjarðargöngin og það var metnaðarfullt á sínum tíma og fyrir því lágu ákveðin rök að setja gjald tímabundið. En þau rök gilda ekki lengur og það er útilokað að eðlilegt sé að mismuna þeim sem þurfa að nota Hvalfjarðargöngin reglulega. Þetta er hluti af þjóðvegakerfi okkar og það gengur ekki að leggja sérstakt gjald þar á endalaust. Samfylkingin lagði höfuðáherslu á það í Norðausturkjördæmi að þetta gjald yrði afnumið. Samfylkingin hefur haft með þennan málaflokk að gera allt þetta kjörtímabil en ekki hefur bólað á neinum tillögum í þá veru, að afnema þessa óréttlátu gjaldtöku. Þá hlýtur maður að spyrja: Er það viðunandi, hv. þm. Guðbjartur Hannesson, að koma hér upp og segja: Ég vil fella gjaldið burt? Er það viðunandi fyrir kjósendur að þingmaður komi fram og segi það þegar kjörtímabili er að ljúka vegna vilja hans flokks? Spurningin er: Hvað hafa hv. þm. Guðbjartur Hannesson eða flokksmenn hans í Samfylkingunni gert til að koma þessu óréttláta gjaldi í burtu? Krafan hlýtur að vera sú að við á þessu svæði búum við sömu kjör hvað samgöngur varðar og fólk annars staðar á landinu.