136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

samgöngumál -- tónlistarhús.

[10:47]
Horfa

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrirspurnina, þrátt fyrir að málið sé eldra en svo að ég þekki það alveg frá upphafi, enda var Austurhöfn-TR ehf. stofnað í apríl 2003 í kjölfar samkomulags ríkis og borgar frá árinu áður um að leggjast á eitt um byggingu tónlistarhúss og ráðstefnumiðstöðvar í Reykjavík. Íslenska ríkið á 54% í fyrirtækinu og Reykjavíkurborg 46%. Málið var tekið upp í 6. gr. heimild í fjárlögum þess tíma og ég verð því að vísa til þeirra þingmanna sem settu það inn. Auðvitað hefur 6. gr. heimildin síðan verið endurnýjuð ár frá ári, eins og því miður er um fjölmargar aðrar 6. gr. heimildir.

Ég er ekki sérstakur talsmaður 6. gr. heimilda. Hins vegar ætluðum við að taka málið fyrir í fjárlaganefnd á mánudaginn var en fulltrúar menntamálaráðuneytisins sáu sér ekki fært að koma á fundinn og hefur nýr fundur verið settur upp í fjárlaganefnd næsta mánudag þangað sem fulltrúar menntamálaráðuneytisins og Austurhafnar-TR ehf. eru boðaðir. Ef hugmyndafræðin er sú að Austurhöfn eigi að kaupa Portus og í raun gera það að dótturfélagi vil ég benda á að um leið þarf Austurhöfn að gera Portus upp í samstæðunni og yfirtaka skuldbindingarnar. Skuldbindingar Portusar eru ekki þær sömu og Austurhafnar því að verkefni Austurhafnar um tónlistar- og ráðstefnuhús eru allt önnur en verkefni Portusar. Menn geta kynnt sér það mál enn frekar.

Á sama hátt vil ég minna á, líkt og fjárlaganefndin öll hefur bent á, varðandi framkvæmd fjárlaga og ábyrgð forstöðumanna E-hluta stofnana, að þar sem skipuð er stjórn til að annast rekstur (Forseti hringir.) og stjórn stofnunar hefur hún þær skyldur sem forstöðumenn hefðu ella. Það á við um E-hluta stofnanir (Forseti hringir.) ríkisins líkt og Austurhöfn. Það er því (Forseti hringir.) stjórnarinnar að bera ábyrgð á málinu.