136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

samgöngumál -- tónlistarhús.

[10:50]
Horfa

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að koma aðeins inn á það mál sem var rætt hér áðan, gjaldtöku í Hvalfjarðargöngum. Svolítið merkileg umræða í ljósi þess að þegar ákveðið var að ráðast í göngin var jafnframt ákveðið að bæta vegakerfið um Hvalfjörð til að hann væri valkostur á móti göngunum. Þeir sem ekki treystu sér til að borga í göngin eða vildu það ekki gætu þá keyrt fyrir Hvalfjörð. Sú var forsendan.

Á þeim grunni var ráðist í framkvæmdina. Síðan er nú boðað að fella skuli niður gjaldtökuna. Þetta er svolítið merkileg nálgun og á sama tíma er talað um aðrar vegaframkvæmdir, eins og hv. þm. Árni Mathiesen benti á úr þessum stól, þar sem einmitt er talað um að taka upp gjaldtöku. Er ég þá að tala um Suðurlandsveg og Vaðlaheiðargöng.

Það er hægt að setja þetta í enn stærra samhengi, ljóst er að halda verður uppi framkvæmdastiginu í landinu og við verðum að ráðast í það að byggja upp samgöngumannvirki í landinu. Ef við fellum niður gjaldtöku í Hvalfjarðargöng verður einhver að borga það og það þarf að taka af vegafé og þar með minnka framkvæmdir. Það er ljóst.

Enn þá merkilegra er þetta í því samhengi að sú ríkisstjórn sem nú situr boðar skattahækkanir eins og við sáum í Morgunblaðinu, þar sem skósveinar ríkisstjórnarinnar, Indriði H. Þorláksson og Stefán Ólafsson, boða skattahækkanir fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Og talað er um að fella niður gjald í Hvalfjarðargöngunum, minnka og lækka framkvæmdastigið í landinu. Þetta er dálítið merkileg umræða.