136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

samgöngumál -- tónlistarhús.

[10:52]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Þær upplýsingar sem bárust frá hv. þm. Gunnari Svavarssyni, formanni fjárlaganefndar, finnast mér skelfilegar. Mér heyrist hann segja þingheimi að þetta sé ekki eingöngu skuldbinding vegna einhvers tónlistarhúss, heldur sé þetta líka fimm stjörnu hótel. Ég minni á að samkvæmt lögum um opinberar framkvæmdir, 84/2001, segir, með leyfi forseta:

„Fjármálaráðherra skal skilgreina kröfur um gerð og framsetningu kostnaðaráætlana og kynna þær fyrir ríki og ríkisaðilum.“

Auk þess:

„Rekstraráætlun sem nær til minnst fimm ára eftir að framkvæmd er lokið.“

Það á sem sagt bæði að liggja fyrir kostnaðaráætlun um alla framkvæmdina og eins um hvað kostar að reka batteríið í fimm ár. Ég vil spyrja hv. formann fjárlaganefndar hvort þetta liggi fyrir eða hvort menn séu með þessum hætti að fara gegnum 6. gr. fjárlaga, í rauninni að plata Alþingi, og hvort við stöndum virkilega frammi fyrir því núna að þurfa að taka á okkur einhverjar gífurlegar skuldbindingar, bæði vegna tónlistarhússins og hótelsins þannig að ríkið sé neytt til að fara út í hótelframkvæmdir. Mér finnst þetta ekki auðvelt mál að leysa og skelfilegt ef mitt í þessari krísu eða þessu vandamáli, sem við stöndum frammi fyrir, niðurskurði í heilbrigðiskerfi, niðurskurði og skattahækkunum, skuli menn fallast á að halda svona framkvæmdum áfram, og að það séu sérstaklega hæstv. ráðherrar Vinstri grænna sem standa í fylkingarbrjósti við þau útgjöld.