136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

samgöngumál -- tónlistarhús.

[10:54]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Áhugaverð umræða fer hér fram. Ýmislegt rifjast upp frá síðustu kosningabaráttu og mér finnst að samfylkingarmenn í Norðvesturkjördæmi hafi verið frekar hógværir í framsetningu sinni fyrir kosningarnar ef þeir hafa ekki talað um annað en það að fella niður eitthvert gjald af göngunum undir Hvalfjörðinn. Í mínu kjördæmi, Norðausturkjördæmi, var talað um gjaldfrjáls Vaðlaheiðargöng strax. Þegar ég spurði hvort mögulegt væri að ná samkomulagi við t.d. þingmenn Norðvesturkjördæmis um að setja þá Vestfjarðagöng aftur fyrir, var svar forustumanns Samfylkingar í Norðausturkjördæmi að það væri ekkert mál, þetta væri bara svona, Vaðlaheiðargöng yrðu í algjörum forgangi og það yrði ekkert gjald.

Síðan fór þetta á allt annan veg, eins og þingheimur þekkir.

Í sambandi við tónlistarhús má kannski segja að það sé tímanna tákn — eða tímans tákn — að yfirleitt var farið í þá framkvæmd. Hér kom þingmaður Sjálfstæðisflokksins og talaði um að þetta hefði verið gæluverkefni, nokkuð er til í því, en þetta var fyrst og fremst gæluverkefni Sjálfstæðisflokksins. Mér er enn minnisstætt að þegar ég sat í ríkisstjórn með hæstv. ráðherrum Sjálfstæðisflokksins á þessum tíma, sáum við einn góðan veðurdag þegar við opnuðum Morgunblaðið að búið var að setja þetta allt af stað og mynd var af hæstv. þáverandi samgönguráðherra, Sturlu Böðvarssyni, og hæstv. þáverandi menntamálaráðherra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, og Björgólfi Guðmundssyni og málið var bara klárt.

Eitthvað lítið hafði verið talað um þetta við ríkisstjórnarborðið.