136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

samgöngumál -- tónlistarhús.

[10:56]
Horfa

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta mál um tónlistar- og ráðstefnuhúsið er farið að vinda upp á sig miðað við síðustu ræðu hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur. Ég sagði áðan að ákveðinn glundroði væri í málinu að því leyti til að mér skilst að Austurhöfn-TR eigi að kaupa hlutafélagið Portus, og ég vil meina að Portus hafi allt aðrar skyldur en Austurhöfn hafði á sínum tíma samkvæmt því leiðarljósi sem var sett inn í 6. gr. Síðan getum við deilt um hversu víðtæk 6. gr. heimildin er í raun, líkt og hv. þm. Pétur Blöndal kom að.

Ég minnti líka á það hér að fjárlaganefndin hefði öll áréttað í verkefni sínu um framkvæmd fjárlaga að þar sem stjórn er skipuð til að annast rekstur og stjórn stofnunar hefur hún þær skyldur sem forstöðumenn höfðu ella. Þetta á við um E-hluta stofnanir ríkisins. Auðvitað er það stjórnar Austurhafnar-TR að koma þessu máli — ef þeir ætla sér að kaupa Portus og gera það síðan upp í samstæðu sinni við Austurhöfn og birta það þannig í ríkisreikningi. Ég minni á að fjárlaganefnd fékk á elleftu stundu hér fyrir jól beiðni um að fara fram með lánsfjárveitingar til handa Austurhöfn en við höfnuðum því vegna þess að við höfðum ekki nægilegar upplýsingar. Þess vegna kallar fjárlaganefnd eftir því að fá fulltrúa menntamálaráðuneytisins og fulltrúa Austurhafnar á mánudaginn kemur til að gera grein fyrir málinu. Í framhaldinu get ég þá komið og gert þingheimi grein fyrir málinu. Það er það sem skiptir máli, að þingið sé upplýst um það sem er að gerast á síðum blaðanna, eins og hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir orðaði það.