136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[11:11]
Horfa

Árni M. Mathiesen (S):

Frú forseti. Þetta er að sönnu ágætt mál sem komið er til 3. umr. Það er eitt af þeim málum sem fyrri ríkisstjórn var með á prjónunum þegar til slita þeirrar ríkisstjórnar kom og því er ágætt að það skuli nú komið á þennan stað í umræðunni. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að mikið hefur gengið á í byggingariðnaðinum undanfarin ár og síðustu mánuðina hefur hann gengið mjög niður. Þess vegna hefur orðið mikið atvinnuleysi hjá þeim sem þar starfa. Vegna hinnar miklu þenslu sem verið hefur á undanförnum árum hefur staðan verið sú að erfitt hefur verið að fá iðnaðarmenn til að vinna viðhaldsverkefni og þess vegna er ekki ólíklegt að talsvert sé af slíkum verkefnum sem þörf er á að vinna á næstunni. Hins vegar er staðan orðin sú að þrengst hefur um fjárhag hjá einstaklingum og fyrirtækjum og þar með mun hvati til að auka þessa starfsemi með því að endurgreiða stærra hlutfall af virðisaukaskattinum virka jákvætt á þá starfsemi á næstu mánuðum og árum.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að um sé að ræða ákveðið tímabil. Maður gæti velt því fyrir sér hvað er eðlilegt og skynsamlegt í þeim efnum og ég ætla svo sem ekki að gera það að sérstöku umræðu- eða deiluefni hér við 3. umr. Það er þá hægt að gera bragarbót á því ef nauðsynlegt er talið að halda þessu áfram eftir 1. janúar 2011.

Sú hugmynd að gera hlutina á þann hátt sem hér um ræðir er ekki ný hugmynd, það var gert á árunum 1991–1995 þegar við vorum í efnahagsörðugleikum, miklum samdrætti og talsvert miklu atvinnuleysi, þó ekki eins miklu og við upplifum núna.

Það kom mér hins vegar talsvert á óvart þegar ég sá stöðuskjalið fyrir 3. umr., að gert var ráð fyrir því að þegar kemur að kostnaði vegna hönnunar og eftirlits er gerður greinarmunur á aðilum eftir því hvaða starfsgreinar eða starfsréttindagreinar vinna verkið. Eins og stöðuskjalið er núna er gert ráð fyrir að virðisaukaskattur af vinnu arkitekta, verkfræðinga og tæknifræðinga verði endurgreiddur 100% en ekki annarra starfsstétta. Samkvæmt skipulags- og byggingarlögum hafa fleiri aðilar heimild til að vinna þessa vinnu en í frumvarpinu, eins og það er núna, er ekki gert ráð fyrir að virðisaukaskattur verði endurgreiddur af vinnuframlagi þeirra. Það er óskiljanlegt og ég kann ekki skýringar á því. Þeir aðrir sem svona vinnu vinna eru innanhússarkitektar, landbúnaðartæknifræðingar, landbúnaðarverkfræðingar og byggingarfræðingar. Ég hefði talið eðlilegt að þessi grein væri miðuð við að virðisaukaskattur yrði endurgreiddur 100% af vinnu þeirra sem hafa heimild til þessara starfa, hönnunar og eftirlits, samkvæmt skipulags- og byggingarlögunum og að við það væri miðað.

Hv. þm. Gunnari Svavarsson vakti athygli á þessu við 2. umr. og var því beint til nefndarinnar að hún tæki málið aftur inn í nefnd og leiðrétti það. Af því varð þó ekki og því brugðum við á það ráð, ég og hv. þingmaður, að flytja breytingartillögu við frumvarpið til að jafnræðis væri gætt á milli þeirra aðila sem sannanlega hafa sömu réttindin samkvæmt skipulags- og byggingarlögunum.

Ég hef ekki orðið var við annað hjá hv. þingmönnum í þingsalnum en að þeir taki vel í þá tillögu. Við flutningsmenn flytjum hana í þeirri trú að hv. þingmenn muni samþykkja hana þar sem hún er til þess að gæta jafnræðis og í samræmi við það sem segir í skipulags- og byggingarlögunum.

Þegar verið er að reyna að koma til móts við þessa hópa vegna þeirrar stöðu sem við erum í er rétt og skylt að gæta jafnræðis. Atvinnuleysi getur stafað jafnmikið af verkefnum sem byggingarfræðingur hefur hannað eða haft eftirlit með eins og verkefnum sem arkitekt eða verkfræðingur hefur með höndum. Það er ekki þannig að kreppan einskorði sig við tilteknar stéttir hvað þetta varðar.

Hins vegar er ljóst að bregðast þarf við á einhvern hátt og ég er sammála þeirri aðferð sem í grunninn er lagt upp með að beita, enda gömul og þekkt aðferð frá fyrri tíð þegar svipaðar aðstæður voru fyrir hendi. Það mun eflaust hafa jákvæð áhrif til að bæta atvinnustöðuna í þessum greinum og hjálpa til við að viðhald á byggingum og íbúðarhúsnæði verði betra en það hefur verið og liðka til fyrir fólk sem þarf að standa í slíkum framkvæmdum.

Það er sennilega ekki von á eins miklum áhrifum hvað varðar nýbyggingar á íbúðar- og frístundahúsnæði, en það mun hjálpa þeim sem standa í slíkum framkvæmdum og halda verkefnum gangandi þannig að þau verði frekar unnin núna en síðar.

Ég vil fyrir mína hönd og samflutningsmanns míns, sem mun væntanlega líka gera grein fyrir afstöðu sinni, beina því til hv. þingmanna að þeir samþykki breytingartillögu okkar í nafni jafnræðis og tryggja þar með að allir njóti þeirrar ívilnunar sem Alþingi mun væntanlega samþykkja hér.