136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[11:21]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum við 3. umr. frumvarp hæstv. fjármálaráðherra um breyting á lögum um virðisaukaskatt þar sem lagt er til að endurgreiðslur á virðisaukaskatti verði 100%, í stað 60% eins og áður var, af viðhaldi og vinnu manna á byggingarstað á eigin íbúðarhúsnæði. Ég ætla í upphafi að gera eins og hv. varaformaður efnahags- og skattanefndar, Árni Þór Sigurðsson, og lýsa yfir stuðningi mínum við breytingartillögu hv. Hafnfirðinga. Það eru réttar ábendingar sem hv. þm. Árni M. Mathiesen og Gunnar Svavarsson koma með og ég sem háttvirtur Keflvíkingur sé ástæðu til að styðja þetta heils hugar.

Þetta er fínt mál og ég lýsti stuðningi mínum við það við 1. umr. Ég tel þetta góða viðleitni ríkisstjórnarinnar til að koma atvinnulífinu til aðstoðar en eins og fram kom í máli síðasta ræðumanns er þetta svo sem ekki frumleg hugmynd af hálfu ríkisstjórnarinnar, heldur er hún dregin upp úr pússi síðustu ríkisstjórnar sem var komin af stað með þetta eins og svo mörg önnur góð mál sem við sjálfstæðismenn ætlum að styðja við bakið á í þinginu.

Þetta er gott dæmi um mál sem við eigum að ræða á þinginu í dag. Við eigum að ræða um mál sem þetta sem mætti kalla tímabundið átak til atvinnusköpunar. Við tókum á móti fjölmörgum gestum og umsagnaraðilum í nefndinni sem voru mjög einhuga um að þetta gæti hjálpað til og komið atvinnulífinu af stað, sérstaklega í byggingariðnaðinum þar sem niðursveiflan hefur verið bröttust og umbreytingin á atvinnugreininni hefur orðið hvað mest í þessari niðursveiflu sem við erum að fara í gegnum núna. Við styðjum það heils hugar að auka endurgreiðsluna upp í 100% og frekari útvíkkanir sem gerð hefur grein fyrir í nefndaráliti, lengingu tímabilsins til 1. janúar 2011, að endurgreiðslan verði ekki aðeins endurskoðuð vegna byggingar íbúðarhúss og endurbætur og viðhald á þess háttar húsnæði heldur einnig vegna frístundahúsnæðis. Breytingartillögur sem varðar arkitekta, verkfræðinga og tæknifræðinga og til viðbótar aðra samkvæmt skipulags- og byggingarlögum eins og breytingartillaga fyrrnefndra þingmanna tekur til og það að þetta nái til sveitarfélaganna styðjum við sjálfstæðismenn og teljum til góðs. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við tökum þetta alla leið fyrst við erum að gera þetta og látum muna um þetta í samfélaginu.

Eins og hér hefur komið fram bíða fjölmargir með viðhald af því að á undanförnum árum hefur verið erfitt að fá iðnaðarmenn til að vinna smærri verkefni, en allt telur þetta þannig að við eigum að fagna þessu.

Ég kalla eftir fleiri slíkum málum og bið ríkisstjórnina að taka verulega til athugunar að koma með fleiri svona mál sem skipta fjölskyldurnar, heimilin og atvinnulífið í landinu máli og hætta, eins og hér kom fram hjá hv. þm. Ólöfu Nordal í umræðu um störf þingsins rétt áðan, þessari ruglumræðu — svo ég noti hennar orð — sem á að vera í dag og næstu daga um breytingar á stjórnarskrá, kosningalöggjöf og alls kyns hugmyndir sem eiga ekki að vera til umræðu í dag. Við eigum að hugsa um svona mál sem leiða vonandi strax til árangurs. Breytingar á stjórnarskrá eru allt of mikilvægar, stjórnarskráin er allt of dýrmæt til að við eyðum tíma hér á stuttu þingi sem er að ljúka störfum. Við þingmenn sem erum kjörin erum að missa umboð okkar, við erum núna úti á akrinum að leita eftir áframhaldandi umboði, sum hver, þannig að við eigum fyrst og síðast að gera það sem þessi ríkisstjórn sagðist ætla að gera þegar hún tók við, koma með aðgerðir sem máli skipta til að bæta hag fjölskyldnanna og fyrirtækjanna í landinu. Ég ítreka þessa hvatningu og vil að við þingmenn göngum á undan með góðu fordæmi vegna þess að við sjálfstæðismenn erum svo sannarlega, eins og hér hefur margoft komið fram, tilbúin til að leggjast á árarnar með þessi góðu mál eins og við sýnum í verki með þessu máli þar sem nefndin tók þetta mjög hratt og örugglega í gegnum nefndina. Við unnum vel saman að þessu og ég vil að við gerum þetta í fleiri málum.

Varðandi umsagnir þeirra sem komu á fund nefndarinnar var, eins og ég gat um áðan, mikill einhugur um þessar tillögur og Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og verkalýðshreyfingin og velflestir þeir sem komu á fund nefndarinnar voru ánægðir með þetta og þeim þótti þetta til bóta. Þó nokkrir bentu réttilega á og vöruðu við áhrifum á tekjuhlið ríkissjóðs og það er mjög réttmæt ábending sem við þurfum alltaf að hafa í huga og þurfum að gæta okkar þar sem við erum að fylgja efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og verðum að passa upp á að við förum eftir henni. Eins og bent er á í nefndarálitinu var á móti á það bent á fundi nefndarinnar að tilgangurinn með frumvarpinu er að fjölga störfum og auka umsvifin í samfélaginu sem færa ríkinu auknar tekjur í formi bæði skatta og að dregið er úr kostnaði á öðrum stað í formi atvinnuleysistrygginga, vonandi. Það er nú eitt markmiðið með þessu.

Annað sem gæti orðið til þess að minnka tekjutapið, eða auka tekjurnar eftir því hvernig á það er litið, er það að vonandi — og það tel ég vera eitt af stóru markmiðunum með þessu frumvarpi — verður þetta til að draga úr svartri atvinnustarfsemi. Ég tel afar mikilvægt að við náum utan um þann vanda sem því miður virðist vera til staðar, sérstaklega í þessum geirum án þess að ég vilji kasta rýrð á stétt iðnaðarmanna að nokkru leyti, en þeir taki til sín sem eiga.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð að sinni. Ég ítreka að endingu það sem ég sagði áðan og ákall mitt til ríkisstjórnarinnar um að fara nú að forgangsraða í vinnu sinni. Það er stuttur tími til stefnu og ég vil að við leggjum okkur fram á Alþingi við að standa saman, koma góðum málum áfram og einbeita okkur að því sem máli skiptir. Hitt getur beðið betri tíma eftir kosningar.