136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[11:30]
Horfa

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að reyna að endurtaka mig ekki frá því við 2. umr. í gær enda var það nokkuð löng og efnismikil ræða um þetta mál sem snýr fyrst og fremst að atvinnulífinu. Ég ætla þó örlítið að koma inn á nokkur atriði. Ég get tekið undir þá umræðu sem fram fór í gær og hefur farið fram í dag hjá hv. þingmönnum. Eins og maður segir er sama hvaðan gott kemur. Við sáum í efnahags- og skattanefnd á öllum gestunum og öllum umsögnunum sem komu að þetta mál átti að fá framgang. Það var alveg auðséð strax í upphafi að vilji var til þess.

Þær fjórar breytingar sem efnahags- og skattanefnd var með gengu út á að taka undir frístundahúsin, lengja út árið 2010, taka undir hönnuðina og núna með þessari breytingartillögu okkar félaganna úr Hafnarfirði, hv. þm. Árna M. Mathiesens og mín, að skilgreina þetta eins og hönnuðir og eftirlitsaðilar eru skilgreindir í skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, með síðari breytingum. Þannig erum við búin að taka inn þennan hóp eins og byggingarfræðingana og aðra. Ég held að það sé betri kostur en að láta túlka einhverja lögskýringu og/eða túlka það í reglugerð. Þá er einfaldlega búið að geirnegla skilgreininguna og við þekkjum það eftir að hafa starfað í byggingariðnaði og skipulagsmálum að það er alltaf álitamál þegar yfirvöld, og þá í þessu tilfelli virðisaukaskattsdeildirnar, þurfa að fara að túlka reikningana: Er um að ræða byggingarfræðing, tæknifræðing, arkitekt eða verkfræðing? Þetta eru aðilar sem falla undir skipulags- og byggingarlögin og þá er útséð með það. Þegar þessir aðilar, Verkfræðingafélagið Arkitektafélagið, Tæknifræðingafélagið og Félag ráðgjafarverkfræðinga, komu fyrir nefndina og sendu inn umsagnir fundum við að þetta skipti þá miklu máli, enda um að ræða mjög stórt atvinnumál.

Fjórða atriðið var síðan þetta sem tengdist sveitarfélögunum. Sveitarfélögin þurfa að fá stuðning frá ríkinu og þau gera það með því að fá endurgreiðsluna líkt og í fráveituframkvæmdunum, við bakreikning virðisaukans fáum við u.þ.b. 20% til baka af þessum 24–25% sem er reiknað inn. Það er þannig í dag að sveitarfélögin hafa heimild til að „vaska“ hönnunarkostnaðinn til baka en ekki af manntímunum. Við þekkjum ákveðin mál í Norðausturkjördæmi, í Dalvíkurbyggð þar sem verið er að byggja samfélagshús, menningarhús sem sveitarfélagið stendur ekki að, og það má vel vera að þar þurfi viðkomandi aðilar að gera samning við sveitarfélagið til að fá stuðning við framkvæmdina, enda var fullljóst með það hús að sveitarfélagið átti að fá það að gjöf þegar það yrði fullklárað. Sú framkvæmd er eins og margar aðrar stopp út af litlu fjármagnsflæði. Það var einmitt sá fyrirvari sem ég gerði í þessu máli í gær, ekki fyrirvari gagnvart mér heldur gagnvart hinu kerfislega í málinu, að ef fjármagnið kæmi ekki inn fengi maður auðvitað ekki endurgreiðslu upp á 20%. Með öðrum orðum þyrftum við að hafa fjármagn til að flæða til að fá endurgreiðslu upp á 20% og það er mín trúa eins og hjá sveitarfélögunum að 20% fari aftur út í veltuna líkt og mun væntanlega gerast hjá eigendum íbúðarhúsa og frístundahúsa eða sumarhúsa. Til þess í raun og veru að geta komið spilinu af stað þarf maður að eiga fjármagn til að hreyfa við þessum 20% til baka. Þetta er eins og við segjum í reglunartækni, þegar við horfum á þetta kerfislega ef við tökum þetta inn í „feedback“rásina og hreyfum þannig 20% aftur inn og tökum það þannig. Ég veit að hv. þm. Pétur H. Blöndal þekkir þetta úr reglunartækninni.

Það var síðan annað atriði sem ég tók upp og var þá hinn fyrirvarinn í umræðunni án þess að ég ætli að fara að setja það sem einhvern ásteytingarstein við það að afgreiða málið út. Málið er auðvitað mjög gott. Við gætum „vaskað“ — og ég er alveg að verða búinn, virðulegur forseti, með mína ræðu, ég sé það að hv. þingmenn eru að bíða eftir því … (ÓN: Við hlustum með athygli.) Ég þakka fyrir það, virðulegur forseti, en það er þetta atriði varðandi manntímana sem ekki eru unnir á byggingarstað. Dæmi: Við erum með glugga- og hurðaverksmiðjur, glerverksmiðjur, járnsmiðjur, vélsmiðjur og fleiri smiðjur sem smíða ýmislegt og það er spurningin hvort hægt væri að taka vaskinn aftur af þeim manntímum sem væru unnir þar því að það hefur í för með sér aukna framleiðslu. Þá koma upp samkeppnissjónarmið varðandi innfluttu vöruna. Ég segi á móti að þeir aðilar sem hafa verið stórir í innflutningi og eru í innflutningi munu fá aukna veltu varðandi stoðvörurnar, þéttingarefnið, festingarnar og ýmislegt annað þannig að hugsanlega er ákveðið kaup kaups í þessu. Vel má vera að þetta tengist þó ekki samkeppnislöggjöfinni því að þetta væru þá sérlög.

Ég ætla ekki að flytja um þetta breytingartillögu en vil bara lýsa því hér yfir að mér finnst að við hv. þingmenn hefðum getað stigið skrefið enn þá lengra til að örva alla þessa iðnaðarframleiðslu sem er starfandi hringinn í kringum landið. Um leið er ég kannski að segja að við séum þá óbeint að draga úr innflutningi því að við erum ekki að „vaska“ til baka — eða endurgreiða vaskinn, ég er eins og ég sé kominn í reksturinn — við erum þá ekki að láta endurgreiðslu á vaskinum koma fram varðandi efniskaupin heldur bara manntímana, véltímana á trésmíðaverkstæðunum og í öðrum sambærilegum iðnfyrirtækjum. Ég held að þetta mundi hafa gríðarleg áhrif. Hins vegar hafa menn tækifæri til að skoða þetta síðar því að það er alltaf hægt, ef vilji er fyrir hendi, að taka svona mál upp. Við getum stigið þetta skref og séð hvernig það virkar og síðan þá farið skrefið áfram. Ég tel að allir mundu njóta góðs af þessu á atvinnumarkaði og ekki hvað síst þeir sem eru að fjárfesta því að þetta tengist auðvitað fjárfestingunni. Vandamálið sem við stöndum frammi fyrir, eins og ég sagði áðan, er að koma fjármagninu á hreyfingu og ég tel að við getum gert það á þennan hátt.

Virðulegur forseti. Eins og ég sagði áðan ætla ég ekki að hafa þessa ræðu lengri. Ég er farinn að endurtaka mig frá því í gær við 2. umr. Ég fagna þessari miklu samstöðu um málið og á ekki von á öðru en að hv. þingmenn veiti brautargengi breytingartillögu frá mér og hv. þm. Árna Mathiesen, eða eins og sagt var hv. Hafnfirðingum, við þetta mál við 3. umr. Breytingartillagan er í raun og veru tæknileg útfærsla til að við kljúfum ekki sundur þennan öfluga hóp hönnuða og eftirlitsaðila og þeirra sem starfa í verkefnastjórn.