136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[11:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er mjög athyglisverð ræða, alveg sérstaklega þegar hv. þingmaður fór að tala um hvatann í ferlinu. Í efnafræðiferli getur stundum verið gott að setja platínu með og þótt hún eyðist ekki hvetur hún kerfið áfram. Það má segja að þessar aðgerðir sem við erum að gera hér, sem ég tel mjög nauðsynlegar, séu einmitt í þá veru. Við erum að setja eitthvað í gang sem er nánast stopp. Þarna er verið að brjóta fullt af prinsippum míns flokks og míns sjálfs sérstaklega þar sem ég vil hafa algilda skatta án undantekninga o.s.frv. en nauðsyn brýtur lög og bankahrun gerist sem betur fer ekki oft þannig að menn þurfa að gera ýmsar aðgerðir sem kannski brjóta prinsippin.

Þessi ræða hv. þingmanns var dæmigerð um það hvað gerist þegar menn gera undantekningar. Fyrst gera menn vinnu á vinnustað skattfrjálsa. Þá kemur spurningin um gluggana sem eru framleiddir á vinnustað eða gluggana sem eru framleiddir í verksmiðju í næsta húsi. Þá kemur spurningin um verkfræðinga sem geta alveg eins hugsað á vinnustað eins og heima hjá sér eða hvar sem er á kvöldin og eru að hanna eitthvað og þá kemur spurningin um þá sem eru að vinna í verksmiðjum úti um allan bæ við að framleiða tilbúnar einingar. Menn eru í rauninni alltaf að finna aðgreininguna.

Ég tek undir með hv. þingmanni að þessi breytingartillaga er til bóta en hún vekur enn upp spurningar um aðgreiningu sem mun örugglega verða gagnrýnd, t.d. að verkamaður sem vinnur við hliðina á verkfræðingnum og býr til glugga fær ekki virðisaukaskattinn endurgreiddan en verkfræðingurinn fær hann núna af því að hann getur unnið hvar sem er.