136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[11:41]
Horfa

Gunnar Svavarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við hv. þm. Pétur Blöndal hugsum stundum eins, svona í kössum, enda kannski ekkert skrýtið, menntaðir á sambærilegan hátt. Í þessu sambandi sagði ég í ræðu minni í gær að ég væri einmitt talsmaður þess að krukka ekki í virðisaukakerfið en um leið lýsti ég því yfir að nú um stundir þegar ástandið er eins og það er ættum við að hugsa svolítið óhefðbundið, út fyrir kassann. Við erum að gera einmitt það því að þetta eru tímabundin sérlög, virka til ársloka 2010 og þá erum við að krukka í kerfið. Ég er hins vegar algerlega sammála hv. þm. Pétri Blöndal, það að útfæra kerfið á margs konar hátt, eins og gert er við virðisaukaskattskerfið með þessum hætti, er ekki til eftirbreytni. Ég hef verið talsmaður þess að skattkerfið sé nokkuð skýrt og greinargott hverju sinni.

Það sem menn gerðu væntanlega þarna var að grípa ákvæði í lögunum um endurgreiðslu upp á 60%, toga hana upp í 100% en þegar við fengum málið í þá nefnd sem við hv. þm. Pétur Blöndal sitjum báðir í fóru menn að skoða allar þessar umsagnir og það að víkka út málið. Um margt hugsum við hv. þm. Pétur Blöndal á sama hátt og um leið kemur upp spurningin um trésmíðameistarann sem vinnur í hurðasmíðinni en ef hann flytur sig yfir á byggingarstaðinn er hægt að „vaska“ hann 100% til baka en ekki í trésmiðjunni sjálfri. Verkfræðingurinn er hins vegar (Forseti hringir.) úti í bæ en ekki á byggingarstað þegar hann (Forseti hringir.) er að vinna sína vinnu eða þá eru það aðrir hönnuðir.