136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[11:49]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég get líka tekið undir það að allar breytingar, undanþágur og útvíkkanir á skattkerfinu þarf að nálgast með mikilli gát. Undir eðlilegum kringumstæðum værum við alls ekki að tala um þessa hluti. Ég held að það sé mikilvægt að það komi fram að við erum að ræða þetta sem viðbrögð við mjög alvarlegu ástandi, að þetta eru tímabundnar aðgerðir til þess að reyna að ýta undir atvinnulífið í landinu við þessar aðstæður en ekki fyrirheit um að við ætlum framvegis að vera með miklar undanþágur eða slíka hluti á skattkerfinu. Ég hygg að um það séum við flest líka sammála.

En varðandi þá breytingartillögu sem fyrir liggur af hálfu Hafnfirðinganna, hv. þingmanna Gunnars Svavarssonar og Árna M. Mathiesens, þá finnst mér hún vera til bóta og ég mun styðja hana við afgreiðslu málsins.