136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[11:51]
Horfa

Björn Bjarnason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég var hér ekki í gær þegar þetta mál var rætt en ég tel að þau sjónarmið hafi komið fram hjá hv. þm. Gunnari Svavarssyni að það sé full ástæða til að skoða málið betur. Ég er ekki sammála honum um að það sé eitthvert atriði að taka þetta mál upp í aðdraganda kosninga og menn velti þessu fyrir sér í kosningabaráttunni. Við erum að fjalla um þetta mál núna, þetta er viðfangsefni sem verið er að takast á við á þessari stundu til að koma til móts við þá aðila sem hafa greinilega veitt umsagnir og hvatt til þess að farið verði inn á það svið sem hv. þingmaður nefndi og þetta sé víðtækara en liggur fyrir í þeim tillögum. Ég verð að segja að miðað við þekkingu hans á málinu og hvernig hann lagði það hér upp, þá er ég mjög undrandi á því að hann skuli ekki stuðla að því að gengið sé lengra í frumvarpinu á þessari stundu. Það er viðfangsefni okkar nú að leysa þetta á þann veg sem hann lýsti og það er mun brýnna viðfangsefni í þingsalnum núna en sá tími sem fór í það í gær að ræða um kosningalögin eða sá tími sem fer í það í eftirmiðdaginn að ræða um breytingar á stjórnarskránni. Þetta er viðfangsefni sem þarf að takast á við núna og á ekki að vísa inn í kosningabaráttu. Þetta viðfangsefni snertir eins og hv. þingmaður lagði upp með og færði góð rök fyrir, bæði aukinn hvata í atvinnulífinu og kemur greinilega til móts við, eins og hann sagði og lýsti, umsagnir sem nefndinni bárust um þann veg sem menn hafi viljað ganga. Ég botna ekki almennilega í því hvers vegna menn ganga ekki þá leið og hvers vegna ekki er haldinn fundur í nefndinni til að breyta frumvarpinu á þann veg sem hv. þingmaður lagði hér til eða taka það til umræðu frekar og reyna að klára það.