136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[11:53]
Horfa

Gunnar Svavarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Stundum er erfitt að botna umræðu og kannski botna í umræðunni. Það má kannski segja að ég hafi farið frjálslega með þegar ég sagði að umsagnirnar gengju í sömu átt og ég vildi, því að umsagnir voru um tiltekið mál, 60% í 100%. Síðan komu hönnuðir með umsagnir og KSÍ kom með umsagnir varðandi sveitarfélögin og landshlutasambönd sveitarfélaganna komu með umsagnir. Í sjálfu sér kom enginn með umsögn í þá átt sem ég var að bera upp, þetta var svona mín eigin hugmyndafræði. Ég ræddi það í tvígang í nefndinni og þegar ég sá það að við mundum ekki ganga fram í samstöðu með málið í nefndinni í þá veru sem ég var að hugsa ákvað ég að bakka út úr málinu en tók það upp í 2. umr. og síðan núna í 3. umr.

Það má vel vera að þetta verði ekki stórt mál í kosningabaráttunni. Ég sagði hins vegar að í kosningabaráttunni þurfi, og hvatti alla til þess, að hugsa svolítið óhefðbundið líka. Við vitum það, bæði ég og hv. þm. Björn Bjarnason, að þetta er ákveðinn skraddarasaumur á þessu máli vegna ákveðins ástands í atvinnulífinu. Ég álít að það sé ekki eftirbreytni til langs tíma að taka upp mál sem þessi. Málið er hins vegar gott á þessum tímapunkti og þar af leiðandi vil ég, í ljósi þess að málið nái fram að ganga núna, að við skoðum það næstu mánuði hvernig endurgreiðslan og kerfið fer af stað og þegar þing kemur saman aftur annaðhvort í vor eða í haust geti menn skoðað þetta aftur. Við erum að tala um 18–20 mánuði varðandi þetta mál og það mætti þess vegna láta á það reyna í sex mánuði og taka málið þá aftur inn til að sjá hvernig það hefur gengið fram.