136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[11:56]
Horfa

Gunnar Svavarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá erum við sammála, ég og hv. þm. Björn Bjarnason. Það eina sem ber kannski á milli er það, og ég get alveg tekið það á mig, að stundum víkur maður í burtu frá vindmyllum samtímans og það gerði ég auðvitað í þessu máli. Ég taldi einhlítt að það að taka enn og aftur umræðu um málið í efnahags- og skattanefnd mundi ekki skila neinu. Við hefðum þurft að skoða málið mun frekar í ljósi samkeppnislöggjafarinnar og afla enn frekari upplýsinga, þannig að ég taldi einhlítt að það væri kostur að afgreiða það með þessum fjórum breytingartillögum frá nefndinni og síðan þeirri breytingartillögu sem kemur inn í dag við 3. umr. Ég hvet svo þá aðila sem verða hér á vettvangi á næstu mánuðum að fylgjast sérstaklega með því hvernig þetta fer fram og að skoða þær hugmyndir sem ég hef borið upp, bæði í nefndinni og í 2. og 3. umr., um að útvíkka þetta mál enn frekar. Þetta er gott mál, þetta er gott fyrir atvinnulífið og ekki síður gott fyrir þá sem eru að fjárfesta hvort heldur er í íbúðarhúsnæði eða frístundahúsnæði og ekkert síður sveitarfélögin.