136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[12:11]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru auðvitað fjölmargir kostir við þetta mál sem ég vék ekki sérstaklega að í máli mínu áðan og það má bara tína til það sem fram kemur í greinargerð með frumvarpinu. Það er til þess fallið að draga úr líkunum á svartri atvinnustarfsemi. Ég vék ekki að því í máli mínu að við höfum nú fellt inn ákvæði um að taka arkitekta, verkfræðinga og aðra hönnuði inn undir gildisákvæði frumvarpsins sem ég held að hafi verið mjög skynsamlegt skref, ekki síst í ljósi þess hversu mjög þrengir að þessum stéttum nú og vonandi verður það til að bjarga einhverjum störfum.

Varðandi það sem hv. þingmaður spyr um og snýr að verksmiðjuframleiðslu tel ég að við séum með þessari breytingu ekki að fella slíka framleiðslu undir þá reglu að af henni fáist endurgreiddur virðisaukaskattur. Við erum fyrst og fremst að fjalla um vinnu á verkstað og það var það sem ég átti við í máli mínu, að ég tel mjög vafasamt að við getum fellt niður virðisaukaskattinn af slíkri innlendri framleiðslu og mismunað þannig gagnvart innflutningi. Okkur eru einfaldlega ákveðin mörk sett í þeim efnum af samkeppnislegum ástæðum og við þurfum að virða viðskiptafrelsið í þessu efni. Ég ítreka hins vegar það sem ég sagði áðan að ég tel að innlend framleiðsla sem og innflutt muni njóta góðs af því ef okkur auðnast með þessum breytingum að hækka framkvæmdastigið, að fjölga vinnandi höndum við byggingarframkvæmdir vegna þess að þá mun mjög margt falla til sem heyrir undir innlenda framleiðslu eða innflutta.