136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[12:14]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér við 3. umr. breytingar á lögum um virðisaukaskatt. Það er mál sem er mjög til þess fallið að örva atvinnulíf í landinu og bjarga störfum, ekki síst á sviði hönnuða og arkitekta. Ég hef talað um það áður að ég tel að þær aðgerðir sem eru til þess að styrkja störf arkitekta og verkfræðinga séu mjög af hinu góða. Oft og tíðum eru þau störf undanfari að verkefnum sem koma nokkru síðar og eru þá til þess fallin að örva verulega atvinnulífið hér.

Eftir að við ræddum þetta mál í gær upphófst löng umræða um kosningalöggjöfina. Ég sagði þá og ég segi það aftur að ég hefði talið að nær væri að fjalla meira um mál af þessum toga frekar en að nýta þann stutta tíma sem eftir er af þinginu fram að kosningum til að ræða mál sem varða ekki hag heimilanna í landinu, varða ekki atvinnulífið eða þann mikla vanda sem við okkur blasir. Hér er hins vegar um að ræða mál sem er í samræmi við það sem við eigum að gera í sameiningu hér á þinginu. Við eigum að sameinast um það, þingmenn allir, að greiða fyrir góðum málum og leggja áherslu á öll þau mál sem eru til þess að efla atvinnulífið.

Þau sjónarmið hafa komið fram af hálfu sumra nefndarmanna að rétt hefði verið að ganga lengra í þessu máli en gert er. Nú er það alveg rétt að það liggur á málinu og það er spurning hvernig menn eigi að útvíkka slíka hluti. Hér er um að ræða undantekningu. Almennt séð er ekki heppilegt að gera miklar breytingar og undanþágur í skattakerfinu en við þær óvenjulegu aðstæður sem nú eru gilda önnur lögmál. Nú þarf að líta til hluta úr annarri átt, grípa til aðgerða sem eru óvenjulegar. Ég hygg að þetta mál sé af þeim toga að verið sé að bregðast við með réttum hætti. Þetta gildir út árið 2010 og ég vonast til þess, eins og við gerum öll hér inni, að á þeim tímapunkti verði nokkuð öðruvísi umhorfs í þjóðfélaginu en nú er.

Hv. þm. Gunnar Svavarsson talaði um það, bæði í dag og í gær, að hann hefði haft önnur sjónarmið uppi í nefndinni. Ég skildi hann á þann veg að það hafi verið sjónarmið sem fengið hefðu undirtektir þeirra gesta sem fyrir nefndina komu — ég áttaði mig ekki á því eftir andsvör hans við hv. þm. Björn Bjarnason hvort svo hafi verið eða hvort þetta hafi fyrst og fremst verið sjónarmið sem hann hélt uppi í nefndinni. Alla vega eru þarna komin sjónarmið um útvíkkun á þessu sem gæti hugsanlega gagnast mjög þessari atvinnugrein.

Það er dálítið skrýtið ef maður hugsar um það og horfir á byggingarstað, vegna þess að við erum að tala hér um aðgerðir sem beinast að byggingarstað, að ekki er horft til þess að mörg af þeim störfum sem áður voru unnin á byggingarstað eru nú komin inn á verkstæði. Hér hefur verið talað um gluggasmíði og hurðir og slíka hluti sem áður voru unnir á staðnum en eru nú eiginlega eingöngu unnir á verkstæði — þegar við erum að bæta inn í þetta hópum sem ekki starfa á byggingarstað þá er þetta auðvitað sjónarmið sem þarf að skoða.

Ég skildi umræðuna á þann veg að þetta mál ætti að fara aftur inn í nefndina en ekki varð af því — ég skildi það þannig í gær vegna þess að þannig talaði hv. þm. Gunnar Svavarsson. Ég vil þess vegna hvetja fulltrúa í efnahags- og skattanefnd til þess að taka það mál upp á vettvangi nefndarinnar. Ég sé að hv. þm. Birkir Jón Jónsson er hér í salnum og ég veit að hann er fulltrúi í nefndinni. Ég hvet hann til þess að skoða þetta mál með opnum huga og gera breytingar og leggja jafnvel fram frumvarp. Ég er viss um að formaður nefndarinnar mun taka því máli mjög vel.

Ég hef spurt að því og fengið við því svör, að jafnvel sé von á einhverjum frekari hlutum. Ég tel mjög mikilvægt við þær aðstæður sem nú eru að nefndirnar í þinginu sjálfar taki að sér að bregðast við þeim vanda sem hér er að eigin frumkvæði og leggja fram mál.

Við erum að tala hér um mál sem varðar atvinnulífið og skuldir heimilanna og þessi brýnu verkefni sem við eigum að vera að sinna. Ég vil taka það fram að mér finnst mikilvægt við svona óvenjulegar aðstæður að þingheimur sameinist um þessi verk. Það hefur verið sagt af hálfu Sjálfstæðisflokksins að fullur vilji sé til þess. Mér finnst mjög mikilvægt að þingmenn sameinist um það.

Í allsherjarnefnd eru t.d. frumvörp um svokallaða greiðsluaðlögun. Það voru frumvörp sem komu fram af hálfu sjálfstæðismanna og ríkisstjórnarflokkanna og einnig ákveðin leið af hálfu framsóknarmanna. Það mál hefur nú verið í athugun í allsherjarnefnd um nokkra hríð. Mál sem mun skipta miklu gagnvart heimilunum í landinu og þeim mikla vanda sem þar er. En það hefur komið fram í meðförum nefndarinnar að gera þarf töluverðar breytingar á málinu. Líta þarf til veðskulda og útvíkka málið og breyta til þess að það þjóni þeim tilgangi sem menn lögðu upp með. Allsherjarnefnd hefur því ekki lokið að ræða þetta mál af sinni hálfu en hefur haft frumkvæði að því að samið verði nýtt frumvarp, nýtt úrræði sem muni víkka og laga þetta greiðsluaðlögunarmál þannig að það þjóni þessum upphaflega tilgangi. Þetta finnst mér ágætisverklag. Mér finnst ágætt að nefndirnar sjálfar, þegar þær rekast á einhverja hluti sem gætu farið betur, taki málið upp í stað þess að vísa því til viðkomandi ráðherra, og þar með kannski seinka framgangi málsins. Þetta skiptir verulegu máli vegna þess að við höfum svo lítinn tíma og það flýtir fyrir málunum ef nefndirnar geta sjálfar tekið þau upp.

Mig grunar að efnahags- og skattanefnd hafi á fjölmörgum fundum, frá fjölmörgum gestum sem þangað hafa komið, fengið ýmsar hugmyndir eða tillögur um það sem betur mætti fara. Mér finnst æskilegt að nefndin leiti leiða til að taka mál upp að eigin frumkvæði. Ég vil sérstaklega hvetja til þess í þessu máli. Ef við náum að taka til við að bæta þarna við verkstæðum og slíkum hlutum er ég viss um að það mun hafa mjög jákvæð áhrif. Það eru á því þau vandkvæði, og það hefur komið fram í þessari umræðu, að við verðum að gæta að samkeppnissjónarmiðum og við verðum að gæta að Evrópureglum. Ég get ekki fallist á það með hv. þm. Jóni Bjarnasyni, sem fram kom hér í gær, að við ættum ekkert að fara eftir þessum vitlausu Evrópureglum ef þær þvældust fyrir okkur við þessar óvenjulegu aðstæður. Auðvitað munum við reyna að gera allt sem við getum til að hvatinn sé sem mestur en við verðum samt að gæta að þeim grundvallarreglum sem við höfum samþykkt að fylgja. Mér finnst mikilvægt að við gerum það í þessu máli líka. Það er greinilegt að það þarf töluvert mikla athugun á því hvort hægt sé að taka inn þessi verkstæði og fleiri þætti. Þá athugun verðum við að fara í og hún mun væntanlega taka einhvern tíma. En það væri afskaplega gott ef það gæti klárast fyrir vorið.

Við eigum ekki að geyma þetta til haustsins eða næsta vetrar eða taka þetta inn í kosningabaráttuna eins og hv. þm. Gunnar Svavarsson lagði til við okkur sem enn þá ætlum að heyja kosningabaráttuna. Mér finnst ekki að svona mál eigi að vera slík. Þetta er mál sem við eigum að sameinast um að taka til við og ekkert vera að þvælast með það inn í kosningabaráttuna heldur taka til við þetta núna. Enn og aftur þá hvet ég nefndina til að skoða það mál mjög vel.

Fyrir liggur breytingartillaga af hálfu hv. þm. Árna M. Mathiesens og hv. þm. Gunnars Svavarssonar. Ég átta mig ekki á því hvort það hafi verið sjónarmið sem almennt var í nefndinni að hafa þetta með þessum hætti — ég sé að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson kinkar kolli þannig að ég lít svo á að vilji sé til þess af hálfu nefndarinnar að samþykkja þessa breytingartillögu. Fyrir mína parta finnst mér hún skynsamleg. Ég held að það sé miklu betra í staðinn fyrir að telja eitthvað upp — það er alltaf svo mikil hætta á því þegar um slíkar upptalningar er að ræða að eitthvað gleymist — að hafa þetta frekar með almennara orðalagi eins og lagt er til í breytingartillögunni. Ég á því ekki von á öðru en að hún muni verða samþykkt þegar málið verður tekið til atkvæða.

Fleiri mál á vettvangi efnahags- og skattanefndar verða tekin hér til umræðu í dag. Mér heyrist að þar séu líka breytingartillögur á ferðinni, gagnvart séreignarsparnaðinum. Það er mál sem er af sama meiði og þetta mál og greiðsluaðlögunarmálið. Þetta eru mál sem skipta verulegu máli í þeim vanda sem nú er við að glíma. Á fundi sem ég var á í gær býsnuðust allir fundarmenn sem ég talaði við yfir því að þingið sinnti ekki þeim málum af nógu miklum þunga sem það ætti að sinna. Af hverju talið þið ekki bara allan daginn um þann vanda sem við blasir og afgreiðið þau mál í staðinn fyrir að tala um önnur mál sem minna máli skipta núna? var spurt. Ég er algjörlega sammála þessu viðhorfi. (ÁÞS: Eigum við þá ekki bara að afgreiða málið?) Ég held að það sé mjög gott að tala og fara vandlega yfir svona mál og gera það eins vel og hægt er. Það er sjálfsagt. Mér finnst ekki síður mikilvægt að þingmenn tali í þeim málum sem eru góð heldur en þeim sem á að gagnrýna. Það hefur oft verið þannig hér að einungis er talað á neikvæðum nótum en ekki á jákvæðum nótum. Ég held að hv. þingmenn í stjórnarliðinu ættu að gleðjast yfir því að stjórnarandstaðan keppist við að hrósa þessu máli, hrósa öðrum málum og reyna að greiða fyrir þeim eins og mögulegt er. Ég held að hv. þingmenn stjórnarliðsins ættu bara að gleðjast yfir því.

Maður áttar sig ekki almennilega á því hversu mikla þýðingu úrræðið hefur þegar til þess tekur vegna þess að endurgreiðslan er sá hvati sem ríkið getur lagt til í þessu. En auðvitað mun þetta síðan ráðast af þeim fjármunum sem aðilar hafa til að ráðast í einstök verkefni, hvernig þetta heppnast þegar upp er staðið, hversu mörg störf koma út úr þessu. Það er engin leið að áætla um það.

Það kemur ágætlega fram í nefndarálitinu að erfitt sé að geta sér til um áhrif þessara breytinga á tekjur ríkissjóðs, þ.e. hversu miklir peningar fari út úr ríkissjóði vegna þessa. En ekki má gleyma því að um leið koma væntanlega inn peningar á móti vegna þess að þegar framkvæmdir hefjast eða menn hafa tök á því að auka þarna við störf og slíka hluti þá gerir þetta ekkert annað en að stækka kökuna. Að því erum við að keppa í þessu. Maður vonast til þess að þetta dugi til þess að þeir sem hafa tök á fari í lagfæringar bæði á heimilum, húsum og mannvirkjum og einnig frístundahúsum — mér þótti mikilvægt að þau komu inn í þetta líka frístundahúsin.

Ég heyrði það líka af hálfu Samtaka iðnaðarins og Samtaka atvinnulífsins gagnvart þessu máli að áður en sú breyting var gerð — vegna þess að í upphafi var hugsunin sú að frístundahúsnæði yrði ekki með, þótt það hafi síðan breyst af hálfu hæstv. fjármálaráðherra. Ég held að það sé mjög mikilvægt. Það eru oft minni verk og minni fjármuni þarf til þeirra í upphafinu. Það er fullt af sumarhúsum hér um allt land sem gott er að fara í að laga. Það hefur verið mjög erfitt undanfarin ár að fá menn til þess að fara í slík verk. Iðnaðarmenn og hönnuðir hafa verið mjög uppteknir af stórframkvæmdum, stórum húsum, opinberum byggingum og slíkum hlutum og vandasamt hefur verið fyrir fólk að fá menn í smáverk og ýmiss konar viðgerðir.

Ég bind miklar vonir við að það muni breytast á þann veg að smáverk örvist töluvert. Það skiptir mjög miklu máli, ekki síst fyrir einyrkja og fólk sem á, að ég hygg, margt mjög erfitt. Við vitum að verkefnastaða iðnaðarmanna er orðin gjörbreytt og þeirra aðstæður gjörbreyttar — nú þarf að leita allra leiða til þess að halda þeirri stétt gangandi eins og hægt er. Ég hygg að það verði töluvert í það að við flytjum inn iðnaðarmenn í stórum stíl eins og gert var. Við töluðum um það fyrir átján mánuðum að stórauka þyrfti iðnmenntun og vonast ég til að við höfum tækifæri til þess að gera það. En aðstæður hafa breyst svo mikið að í stað þess að vera að flytja inn iðnaðarmenn, rafvirkja og alls kyns fagfólk eigum við nóg með að halda störfum hjá okkar góðu iðnaðarmönnum í þessu landi. Þannig að þetta mál er eitt af þeim mikilvægari sem fram hafa komið til handa þessum hópi. Ég vil enn og aftur fagna þessu máli og vonast til þess að það verði samþykkt hér fljótt.