136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[12:29]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Hér fer fram lokaumræða um frumvarp sem gengur út á að veita fyrirtækjum og sveitarfélögum endurgreiðslu á virðisaukaskatti í ákveðnum tilvikum, frumvarp sem er til þess fallið að vera innspýting í íslenskt atvinnulíf sem glímir við mikla erfiðleika. Við heyrum af því á hverjum degi að miklar uppsagnir eru í gangi í þjóðfélaginu, við heyrum af greiðsluerfiðleikum fyrirtækja, við heyrum af því að fyrirtæki eiga mjög erfitt með að greiða opinber gjöld, það er alveg ljóst. Við framsóknarmenn höfum viljað leggja okkur fram um að koma til móts við bráðavanda íslensks atvinnulífs í dag með það að markmiði að sem flestir Íslendingar haldi atvinnu í erfiðu árferði. Lánin eru að hækka og það segir sig sjálft að þeir sem ekki hafa atvinnu eiga erfitt með að standa undir skuldbindingum og að framfleyta fjölskyldu.

Við framsóknarmenn höfum talað fyrir því á vettvangi þingsins að það þurfi að afgreiða mál hratt og örugglega. Þetta mál er það fyrsta í tíð núverandi ríkisstjórnar sem er afgreitt á vettvangi þingsins og það má ekki seinna vera. Þess vegna leggjum við mikla áherslu á að klára afgreiðslu þess í dag þannig að þetta góða mál geti orðið að lögum. Vonandi verður Alþingi þess megnugt að afgreiða fleiri svona mál sem eru til þess fallin að stuðla að meiri velferð heimila og meiri velferð í íslensku atvinnulífi. Það er mjög brýnt að við komum í gegn frumvörpum sem eru til þess fallin að auka styrk og kraft í íslensku atvinnulífi með það að markmiði að minnka atvinnuleysi sem yfir okkur hefur dunið og er fyrirsjáanlegt í framtíðinni.

Hv. þm. Ólöf Nordal minntist á áðan og beindi því til nefndarinnar að við ættum að skoða hvort veita ætti fleiri undanþágur í þá veru að veita fyrirtækjum undanþágu frá virðisaukaskatti og ég vil skoða það mál. Ég vil að það verði tekið upp á vettvangi efnahags- og skattanefndar hvort við eigum í ljósi þess efnahagshruns sem hefur dunið yfir okkur á undanförnum mánuðum að skoða það sérstaklega hvort við getum með einhverjum hætti komið betur til móts við atvinnulífið með tímabundnum aðgerðum, t.d. með því að endurgreiða virðisaukaskatt. Það er alltaf mjög vandmeðfarið að ráðast í slíkar breytingar og við verðum náttúrlega að gera okkur grein fyrir því hvað slíkt mundi hafa í för með sér.

Hv. þm. Ólöf Nordal kom ágætlega inn á það hér og ég vil nú, af því að hún er að yfirgefa Norðausturkjördæmi, en hv. þingmaður var þingmaður Norðausturkjördæmis en hefur nú ákveðið að bjóða sig fram í Reykjavíkurkjördæminu, þakka henni fyrir gott samstarf í kjördæminu á þessu kjörtímabili. Ég er náttúrlega mjög glaður fyrir hönd Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi yfir því að hv. þingmaður skuli hafa ákveðið að færa sig um set því að það mun veita Framsóknarflokknum í mínu kjördæmi ómæld tækifæri til þess að ná gríðarlega góðum árangri í kosningunum í vor.

Hæstv. forseti. Ég hvet til þess að við afgreiðum þetta mál hið fyrsta. Við þurfum líka að horfa til annarra tillagna og ég vil vísa til þeirra efnahagstillagna sem Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram, bæði hvað snertir atvinnulíf og fjölskyldur í landinu. Ég hef sagt það áður úr ræðustóli Alþingis að mér hefur fundist sem margir stjórnmálamenn blási þær tillögur nokkuð ódýrt út af borðinu því að engir stjórnmálaflokkar hafa komið með heildstæðar tillögur í efnahagsmálum þjóðarinnar sem snerta bæði heimilin og fyrirtækin. Að okkur steðjar bráðavandi og það er kallað eftir því að stjórnmálaflokkar komi með tillögur að lausnum á núverandi ástandi, og Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram sínar hugmyndir í þeim efnum.

Að sjálfsögðu eru þær tillögur ekki yfir gagnrýni hafnar en við hljótum að gera þær kröfur til annarra stjórnmálaflokka að þeir komi með viðlíka tillögur. Við framsóknarmenn funduðum í morgun með félagsskap sem kallar sig — nú er heitið á félagsskapnum reyndar dottið úr minni mínu — en sá félagsskapur hefur rætt um bráðavanda heimilanna, hvernig við komum að honum og hvernig við förum að því að gera heimilunum kleift að standa undir sínum miklu skuldbindingum. Margar fjölskyldur horfast í augu við að það er ógerningur að standa undir þeim skuldbindingum sem viðkomandi heimili þarf að rísa undir, bæði vegna þess að atvinnutekjur hafa dregist saman hjá viðkomandi eða viðkomandi hefur jafnvel misst atvinnuna. Það segir sig sjálft að í slíku ástandi þurfa stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn að koma fram með tillögur um hvernig við sem þjóð ætlum að koma okkur út úr þeim brimskafli sem hefur dunið á þjóðinni og hvernig við ætlum að byggja landið til framtíðar. Hvernig sjáum við íslenskt samfélag rísa upp úr þeim rústum sem við okkur blasa?

Framsóknarflokkurinn hefur komið með raunhæfar tillögur til þess að koma til móts við skuldug heimili og skuldug fyrirtæki. Þær aðgerðir sem eru í 26 eða 28 liðum eru skoðunarverðar. Ég sé að hv. þingflokksformaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Jón Bjarnason, er kominn í þingsalinn og það hefði verið ástæða til þess að heyra sjónarmið hans og hvernig honum líst á þær tillögur sem þingflokkur framsóknarmanna hefur lagt fram í efnahagsmálum er varða vanda heimila og fyrirtækja.

Ég hef þá staðföstu trú að við höfum einfaldlega ekki efni á því að ganga til kosninga án þess að hafa ráðist í raunverulegar aðgerðir til að mæta þessum bráðavanda. Það er alveg ljóst að nýrrar ríkisstjórnar bíður það verkefni eftir 25. apríl að koma sér saman um málefnasamning, skipta með sér verkum og fleira. Því mun einhver tími líða þangað til ný ríkisstjórn getur haldið áfram að ráðast í verkefni sem snerta það efnahagsástand sem við okkur blasir í dag. Þess vegna verðum við að ná samstöðu um það á vettvangi Alþingis, allir stjórnmálaflokkar, við verðum að rífa okkur upp úr því hjólfari kreddustjórnmálanna og við verðum að koma okkur saman um raunhæfar leiðir til þess að koma til móts við bráðavanda fyrirtækja og heimila, það er einfaldlega þannig. Við höfum ekki efni á að bíða.

Menn tala mikið um að þær aðgerðir sem Framsóknarflokkurinn hefur lagt til í málefnum atvinnulífs og heimila séu kostnaðarsamar. Ég bið hv. þingmenn og aðra sem hlusta á þetta að velta því fyrir sér hver ávinningurinn yrði ef við mundum ráðast í þær tillögur sem við framsóknarmenn höfum lagt til. Staðreyndin er sú að verði ekkert að gert er raunveruleg hætta á kerfishruni í íslensku samfélagi. Ég er ekki að segja það hér og ræða um kerfishrun til þess að draga kjarkinn úr fólki en ég tel það hins vegar vera skyldu mína og við framsóknarmenn teljum það vera skyldu okkar að horfa til framtíðar og horfa á þá hluti sem fyrirsjáanlegir geta orðið. Það er því mikill ávinningur í því að ráðast í raunverulegar aðgerðir nú þegar til þess að koma til móts við heimilin og fyrirtækin. Mér hefur fundist á það skorta, hæstv. forseti, að stjórnmálaflokkar á vettvangi Alþingis, aðrir en Framsóknarflokkurinn, hafi komið fram með heildstæðar leiðir, heildstæð markmið til að bæta úr því ástandi sem við okkur blasir. Það vantar einfaldlega.

Hér á vettvangi þingsins næsta mánudag mun ég vonandi eiga utandagskrárumræðu við hæstv. forsætisráðherra um vandann í efnahagslífinu, um vanda heimila og fyrirtækja. Utandagskrárumræðan verður klukkustundarlöng og þar munum við framsóknarmenn rukka aðra stjórnmálaflokka um það hvað menn raunverulega vilja og hvaða raunverulegu lausnir menn hafa til þess að aðstoða heimilin og atvinnulífið.

Ég veit að ég er að endurtaka mig dálítið þegar ég tala um heimilin og atvinnulífið en ástandið er með þeim hætti að í lýðveldissögunni hefur ekki annað eins ástand ríkt, við skulum bara játa það. Við hljótum þess vegna að taka það mjög alvarlega og horfa til þess með ábyrgum hætti og með það að markmiði að menn komi einhverjum alvörumálum hér í gegn á vettvangi Alþingis. Þegar menn gagnrýna og reyna að rakka niður efnahagstillögur Framsóknarflokksins og segja: Við skulum bara gera eitthvað annað, skulu menn a.m.k. vera nógu stórir til þess að segja hvað þeir vilja. Þeir stjórnmálamenn sem segja bara gerum eitthvað allt annað, þeir stjórnmálamenn sem iðka slíka pólitík eru ekki stjórnmálamenn framtíðarinnar. Við þurfum að koma með raunhæfar lausnir á aðsteðjandi vanda og það er markmið okkar framsóknarmanna.

Við erum til viðræðu um útfærslur á tillögum okkar en því miður hefur mér fundist á það skorta hjá ákveðnum stjórnmálaflokkum að vera til viðræðna um það, því miður. (JM: Þá ertu væntanlega að tala um vinstri græna.) Ég ætla svo sem ekkert að fara að nefna einstaka stjórnmálamenn eða flokka í þessari umræðu, menn verða bara að standa fyrir máli sínu hér á vettvangi Alþingis.

Úti í samfélaginu er sívaxandi krafa hjá almenningi og forsvarsmönnum í íslensku atvinnulífi um að gripið verði til raunverulegra aðgerða. Þegar við framsóknarmenn sögðum að við mundum vilja styðja núverandi ríkisstjórn til allra góðra verka meintum við það. Við sögðum jafnframt að við mundum leggja fram tillögur okkar í efnahagsmálum með það að markmiði að skapa betra Ísland. Við hljótum því að gera þá lágmarkskröfu til annarra stjórnmálaflokka og kannski ekki hvað síst til þeirra sem eiga aðild að ríkisstjórn að menn gaumgæfi verulega þessar tillögur.

Hvernig voru þær unnar? Þær voru unnar með fjölda hagfræðinga, þær voru unnar í samráði við forsvarsmenn í íslensku atvinnulífi og þær voru unnar með þingflokki framsóknarmanna. Á mjög breiðum grundvelli í margar vikur voru þessi mál gaumgæfð ítarlega, hvernig við gætum komið til móts við þennan bráðavanda. Mér fannst margir stjórnmálamenn vera ansi fljótir að dæma þessar tillögur út af borðinu, því miður. En það getur vel verið að menn séu svo skarpgreindir að þeir geti tekið 26 eða 28 efnahagstillögur sem hópur sérfræðinga hefur unnið að í margar vikur og dæmt þær út af borðinu.

Þá hljótum við, hæstv. forseti, eins og ég sagði áðan, að óska eftir því að þeir hinir sömu komi fram með heildstæðan pakka til aðstoðar heimila og atvinnulífs, við hljótum að gera það. Það eru erfiðir tímar fram undan og hver dagur sem líður í þessu erfiða árferði er okkur mjög dýr. Við skulum hugsa um þann ávinning fyrir íslenskt samfélag ef okkur tekst hér á vettvangi þingsins að koma okkur saman um heildstæðan pakka í efnahagsmálum, sama hvort það varðar atvinnulíf eða heimilin. Við framsóknarmenn leggjum mikla áherslu á að við náum slíkri sátt á vettvangi Alþingis. Þess vegna þurfum við að rífa okkur upp úr þeim hjólförum að telja okkur trú um að það sem við leggjum fram eða það sem aðrir leggi fram sé hið eina rétta. Við þurfum að ná slíkri samstöðu fram hér á vettvangi Alþingis og þessi ræða er flutt í fullri einlægni með von um að við náum í alvöru samstöðu á vettvangi þingsins í þessum málum.

Aldurshópurinn 25 ára til 45 ára hér á landi eru 90 þúsund manns sem eiga trúlega svipaðan fjölda afkomenda. Margt fólk á þeim aldri er atvinnulaust. Þetta fólk er með miklar skuldir á heimilum sínum og þetta fólk er þessa dagana verulega að íhuga framtíð sína, hvort það ætlar yfir höfuð að búa hér á landi. Til þess að sannfæra þetta fólk, sem er af minni kynslóð, um að það sé lífvænlegt að búa hér til framtíðar verða menn að horfa til Alþingis Íslendinga. Menn verða að horfa til stjórnmálaflokkanna og stjórnmálamannanna og hvort þeir hafi einhverjar raunverulegar lausnir í því ástandi sem við okkur blasir. Ég tel að við framsóknarmenn höfum lagt fram okkar tillögur til þess að koma til móts við þá erfiðleika sem við okkur blasa og við munum hér á Alþingi í dag og á næstu dögum kalla eftir því að aðrir flokkar og aðrir stjórnmálamenn geri slíkt hið sama.

Annars vil ég lýsa yfir miklum stuðningi við þetta góða mál sem verður afgreitt í fullu samkomulagi á milli allra flokka og við þurfum að koma fleiri slíkum málum í gegnum Alþingi Íslendinga á næstu dögum.