136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[12:51]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir þau orð hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar um hversu mikilvægt er að grípa sem hraðast og fyrst til aðgerða til að tryggja atvinnu og stöðu heimilanna. Það er í gangi. Frumvörp eru komin frá ríkisstjórninni sem öll eru um að taka á og koma inn í þessi mál. Þau hafa, að ég best veit, líka notið stuðnings Framsóknarflokksins.

Þetta eru erfiðir tímar en við verðum samt að taka á þeim. Þessi ríkisstjórn er í sjálfu sér bara um ákveðin verkefni til skamms tíma. Svo verður kosið og ég vona svo sannarlega að ríkisstjórnin geti setið áfram, eða þeir flokkar sem standa að henni. (BJJ: Og Framsóknarflokkurinn.)

Já. Ég tel að Framsóknarflokkurinn eigi góðan þátt í að veita ríkisstjórninni hlutleysi sitt og verja hana vantrausti. Þetta eru erfiðir tímar sem við tökumst á um. En við verðum að verja atvinnuna og heimilin.

Ég legg áherslu á að reynt verði að leita allra leiða til að ná niður vöxtum. Þessir vextir eru að sliga bæði heimili og atvinnulíf. Auk þess þurfum við líka að ná niður verðbólgunni þannig að verðtryggingin bætist ekki jafnframt þarna ofan á til íþyngingar og það á líka að kanna leiðir hvernig hægt er að afnema verðtrygginguna, þótt það verði gert í áföngum.

Þetta eru atriði sem við þurfum að (Forseti hringir.) horfa til og (Forseti hringir.) ég bara vona og treysti að (Forseti hringir.) Framsóknarflokkurinn veiti þessari ríkisstjórn áfram stuðning eða brautargengi eins og hann hefur gert og við (Forseti hringir.) náum að koma þeim málum til framkvæmda, eins mörgum og kostur er.