136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[13:04]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þm. Jóni Gunnarssyni um að það er mikilvægt að stjórnmálaflokkarnir móti sér trúverðuga atvinnustefnu fyrir komandi kosningar. Framsóknarflokkurinn mun ekki skorast undan því. Það var mikið grín gert að Framsóknarflokknum í aðdraganda kosninganna 1995 þegar hann lofaði 12.000 nýjum störfum með ákveðnum leiðum að því markmiði. Það er alveg á hreinu að Framsóknarflokkurinn mun leggja höfuðáherslu á það að koma hjólum atvinnulífsins í gang á ný. Framsóknarflokkurinn hefur skilning á þörfum atvinnulífsins og við vitum og höfum skilning á því að ef við búum ekki við öflugt atvinnulíf getum við ekki staðið undir öflugu velferðarkerfi. Það er grunnstoðin undir öflugt velferðarkerfi að fólk hafi atvinnu og að hér á landi sé öflugt og sterkt atvinnulíf.

Framsóknarflokkurinn hefur nú þegar lagt fram tillögur um það (Forseti hringir.) hvernig við getum eflt atvinnulífið og að því mun hann að sjálfsögðu stefna á komandi mánuðum.