136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[13:46]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta fer að verða dálítið kostuleg umræða, verð ég að segja. Við erum hér í 3. umr. um mál sem almenn samstaða er um í þinginu á milli allra flokka. Við 2. umr. voru fluttar sameiginlegar breytingartillögur frá fulltrúum allra flokka, sameiginlegt nefndarálit, og við 3. umr. hafa tveir þingmenn flutt breytingartillögu sem ég hef fyrir hönd okkar í mínum flokki og meiri hlutans í nefndinni sagt að við mundum styðja.

Ég veit því ekki betur en að almenn samstaða sé um þetta mál og lögð er á það rík áhersla af öllum sem hér hafa talað að þetta sé mikið þjóðþrifamál og þurfi að komast í gegn. Engu að síður koma þingmenn Sjálfstæðisflokksins hver á fætur öðrum og flytja langar ræður sem eðli málsins samkvæmt hefðu átt heima við 2. umr. málsins. Mörgum af þeim álitamálum sem hv. þm. Jón Gunnarsson dró hér upp var svarað við 2. umr. málsins, m.a. að því er lýtur að gluggaeiningum og slíkum málum, húseiningum, hvort hægt sé að gera greinarmun á því sem er framleitt hér innan lands eða erlendis, og því hefur verið svarað að slíkt er ekki mögulegt á grundvelli EES-samningsins.

Ég fæ því ekki betur séð en að hér sé fyrst og fremst verið að reyna að tefja daginn vegna annarra mála sem eru á dagskrá fundarins síðar í dag. Mig grunar satt að segja að það sé tilgangur þeirra sjálfstæðismanna en ekki endilega að tefja fyrir þessu máli.

Varðandi gildistökuna höfum við í nefndinni lagt til lengri gildistöku en í stjórnarfrumvarpinu vegna þess að við töldum mikilvægt að ná hér inn öllu árinu 2010 — og að það muni auka svarta atvinnustarfsemi eftir það, á því verður þá að taka á þeim tímapunkti. Þetta er ráðstöfun sem okkur finnst brýnt að grípa til til að örva byggingarstarfsemina núna (Forseti hringir.) og þess vegna er skynsamlegt að hafa á henni tímamörk til að hvetja til að menn fari núna en ekki síðar (Forseti hringir.) í þessar framkvæmdir.