136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[13:52]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir svör hans um störf nefndarinnar. Það vekur furðu hjá mér að fyrst þetta atriði kom sérstaklega til umræðu í nefndinni hefur það greinilega þótt þess virði að það þyrfti að ræða það. Þá vekur það mér furðu að þetta hafi ekki einfaldlega verið orðað með þeim hætti að á því væri enginn vafi eða þá að á því yrði tekið í greinargerð með frumvarpinu, það kemur ekkert fram um það. (Gripið fram í.) Ja, það er hægt að sjá það í orðanna hljóðan í lagatextanum að hægt er að vekja upp spurningar um þetta. Þrátt fyrir túlkun ríkisskattstjóra á þessu máli er það fyrir breytingu laganna. Við erum að breyta hér lögum sem hann þarf þá væntanlega að túlka aftur.

Hv. þingmaður kom ekki inn á, ekki svo að ég tæki eftir, þær vangaveltur mínar að þegar þessi breyting á lögunum rennur út 31. desember 2010 og gömlu lögin taka gildi 1. janúar 2011 þá séum við að senda þau skilaboð að við viljum efla aftur svarta atvinnustarfsemi í landinu. Einn megintilgangur þessara laga, það kemur fram í greinargerðinni, er að skref sem þetta muni draga úr svartri atvinnustarfsemi í byggingariðnaði. Þetta er þjóðarböl og ég tek innilega undir það, en erum við þar með að segja að við ætlum að auka aftur svarta atvinnustarfsemi þegar þessi lög renna sitt skeið á enda?