136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[13:54]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég tók eftir því að hv. þm. Jón Gunnarsson talaði um að Sjálfstæðisflokkurinn hefði skýra stefnu í atvinnumálum. Það má til sanns vegar færa að það sé skýr stefna að vera með gjafakvótakerfi í sjávarútvegi sem brýtur mannréttindi á sjómönnum og hefur gert til margra ára. Það má líka tala um kvótakerfi í landbúnaði sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið á bak við og varið í langan tíma.

Það er dapurlegt þegar hv. þingmaður telur sér trú um að stefnan í atvinnumálum hjá sjálfstæðismönnum sé sú besta í heimi. Það er langur vegur frá og þeir eru einkavinavæðingarsinnar og hafa verið. Þeir gáfu bankana og þeir hafa gefið fiskinn í sjónum fáum útvöldum og viðhaldið þessu kvótakerfi bæði í landbúnaði og sjávarútvegi. Það er ekki til þess að styrkja atvinnu að vera með slíkt fyrirkomulag og hafa aðalatvinnugreinar þjóðarinnar með þeim hætti sem raun ber vitni.

Það er sorglegt að hv. þingmaður skuli vera að tala um skýra stefnu í atvinnumálum. Mér fannst nauðsynlegt að koma þessu að í andsvarinu. Það eru ekkert annað en öfugmæli sem hv. þingmaður heldur hér fram. Ef eitthvað er og ef Sjálfstæðisflokkurinn þyrfti einhvers staðar að taka til í sínum ranni og endurskoða stefnumál sín þá er það í atvinnumálum. Þeir tala fyrir frelsi einstaklingsins til athafna og gjörða á hátíðisdögum og ættu því að hugleiða þessa spurningu mína: Hvar er frelsi til athafna í landbúnaði eða sjávarútvegi í dag? Það er ekki til. Þeir eiga stærstan hluta í því að koma þessu í þann farveg sem þetta er og bera mestu ábyrgðina á því hver staða okkar (Forseti hringir.) í efnahagsmálum er í dag.