136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[14:25]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Ég styð þetta frumvarp og ég styð breytingartillöguna sem komin er frá gaflaranum, hv. þm. Árna Mathiesen og Hafnfirðingnum, hv. þm. Gunnari Svavarssyni. (ÞKG: Tveir góðir gaflarar.) Þeir eru ekki gaflarar, hv. þingmaður, því að annar þeirra er ekki fæddur í Hafnarfirði. Gaflarar eru þeir sem eru fæddir þar og Hafnfirðingar þeir sem hafa búið þar, og hv. þingmaður er ekki sjálf gaflari. (ÞKG: Nei, því miður.) Já, því miður.

(Forseti (ÞBack): Ég minni hv. þingmenn á að beina orðum sínum til hæstv. forseta.)

Hæstv. forseti. Ég styð þetta frumvarp og þessa breytingartillögu og að öllu gríni slepptu er þetta skref í rétta átt. Þó að þetta muni ekki leysa neinn stórvanda þá hjálpar það til að einhverju leyti að taka þarna inn arkitektana, tæknifræðinga, verkfræðinga og hugsanlega einhverja aðra eftirlitsaðila og fella niður virðisaukaskatt af þeirra vinnu, það hjálpar auðvitað. Þetta er hænufet í rétta átt og sjálfsagt að styðja þetta. Atvinnuuppbygging er auðvitað aðalmálið og að efla atvinnurekstur og sérstaklega þann atvinnurekstur sem býr til gjaldeyristekjur og skapar mörgu fólki vinnu og síðan að koma í veg fyrir aukið atvinnuleysi.

Við þurfum líka að huga að þeim atvinnurekstri sem sparar gjaldeyri og við getum framleitt ýmislegt innan lands sem sparar okkur gjaldeyrisútstreymi, að því þarf að huga líka.

Það er margt sem hér er hægt að ræða, sem snýr að atvinnumálum og þessu frumvarpi sem gengur út á að fella niður virðisaukaskatt. Við vitum að vaxtaokrið hjá okkur með stýrivexti upp í 18% gengur auðvitað ekki og verðtrygging á lánum ekki heldur. Hugsanlega er hægt að færa þau niður eða aftur á bak eða færa þau aftur í tímann og gera breytingar. Þá værum við að fella niður skuldir sem lentu á ríkissjóði og ríkissjóður þyrfti að borga brúsann. Það eru ekki til neinar barbabrellur í þessu, ekki að lækka skuldir, hvorki á fyrirtækjum né heimilum, það er nú einu sinni staðreynd. Ef það á að gera það þarf ríkissjóður að skattheimta með öðrum hætti. Hugsanlega gæti slíkt verið verjandi í einhverjum tilfellum en menn þurfa auðvitað að fara varlega í slíka gjörninga. Þó svo að það væri auðvitað gaman að geta lækkað skuldir verulega hjá fólki kostar það peninga. Ef það á að fara í 20% niðurskurð á skuldum eins og Framsóknarflokkurinn hefur lagt til þá þarf að finna peninga til þess að hægt sé að gera það eða að auka skattheimtu og skera niður annars staðar í þjóðfélaginu á móti.

Til að byggja upp atvinnulífið og koma hjólum atvinnulífsins í gang og minnka það atvinnuleysi sem er hjá okkur þurfa bankarnir auðvitað að vera virkir og geta tekið þátt í því að hjálpa fyrirtækjum, skaffa rekstrarfé inn í fyrirtæki svo að þau geti snúist. Ég neita því ekki að mér finnst það hafa gengið allt of hægt að færa þessar skuldir úr gömlu bönkunum yfir í nýju bankana og fara yfir hvaða fyrirtæki er raunverulega hægt að aðstoða og hvaða fyrirtæki hreinlega verða að fara í þrot.

Ég átti fund í efnahags- og skattanefnd um daginn með ágætum bankamanni, Mats Josefsson, frá Svíþjóð, og ég verð að segja það að hann olli mér vonbrigðum og hugmyndir hans um íslenskt atvinnulíf og þekking hans á því. Ég held að það hefðu margir getað gert jafn vel eða betur en hann hefur verið að gera hér.

Enn og aftur ítreka ég að ég styð þetta frumvarp. Þetta er hænufet í rétta átt og það er hægt auðvitað að efla atvinnulífið með ýmsum hætti og þetta er eitt skref í þá átt. Við eigum marga aðra möguleika víða í atvinnulífinu sem snúa að nýtingu auðlinda okkar, bæði til sjávar og sveita. Það er það sem við þurfum að gera núna til að komast út úr þessari kreppu og þessum vandræðum, að nýta þá möguleika betur en við höfum gert.