136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[14:36]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að elta ólar við að rökræða við hv. þm. Sturlu Böðvarsson um skattstefnu ríkisstjórnarinnar. Það hefur komið fram í máli fjármálaráðherra að það standi ekki til að gera neinar breytingar á almennum sköttum eins og sakir standa. Við erum að tala hér um hækkaða endurgreiðslu á virðisaukaskatti sem er einmitt frekar skattalækkun, þannig að ég ætla ekki að eyða meiri tíma í það.

Varðandi fyrirspurn hv. þingmanns þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir því að endurgreiðsla virðisaukaskatts nái til húseininga. Hún nær nú þegar í lögunum til verksmiðjuframleiddra húsa og gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að hún nái einnig til húseininga og endurgreiðslan á þessum þáttum hækkar þá úr 60% í 100%. Mér er kunnugt um þau áhyggjuefni sem hv. þingmaður nefnir og ég hef verið í sambandi við aðila sem hafa einmitt lýst slíkum áhyggjum og ég veit ekki betur en þeir séu ánægðir með að fá húseiningarnar inn í lögin eins og hér er gerð tillaga um. Frumvarpið er að sjálfsögðu ekki afturvirkt þannig að það getur ekki tekið á þegar liðnum tíma hvað þetta snertir. Ég veit hvaða áhyggjur hér um að ræða og hef rætt það að á því verði hugsanlega tekið sérstaklega og mun ræða það frekar við starfsmenn fjármálaráðuneytisins hvort hægt er að finna einhverjar leiðir í því efni sem hv. þingmaður er að vísa til.