136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[14:40]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Bara rétt um áhyggjur hv. þingmanns af einhverjum skattahækkunum í framtíðinni, þá er rétt að vísa til þess að við störfum núna í efnahagsmálum eftir áætlun sem ríkisstjórnin samþykkti og gerði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og af hálfu þeirra aðila sem að því stóðu hefur ekki verið tekið fyrir að það kunni að þurfa að hækka skatta einhvern tíma í framtíðinni. Ég minni á að þáverandi hæstv. forsætisráðherra var Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, og það var ríkisstjórn undir forustu Sjálfstæðisflokksins sem gerði þessa efnahagsáætlun við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og af hálfu forustu Sjálfstæðisflokksins hefur ekki komið fram neitt annað en að það kunni vel að koma til þess á síðari stigum að hækka þurfi skatta. Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur alls ekki þvertekið fyrir það þó að sjálfstæðismenn ýmsir aðrir reyni að berja sér á brjóst núna í aðdraganda kosninga og tali um að það muni ekki koma til greina. Við vinnum í anda og í samræmi við þessa áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og um þessi mál er fjallað þar en ég ítreka það sem ég hef áður sagt að það eru engin áform uppi um það núna að ráðast í einhverjar skattahækkanir. Við erum að reyna að koma fótunum undir atvinnulífið í landinu sem Sjálfstæðisflokkurinn skildi eftir í rúst og ég vona að það verði góð samstaða um afgreiðslu þess máls sem hér er til umræðu, því að það mun vissulega örva atvinnulífið, sérstaklega í byggingargeiranum og skyldri starfsemi, og ég vænti þess að við störfum öll saman að samþykkt þess frumvarps sem við ræðum hér.