136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[14:53]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá minni hluta efnahags- og skattanefndar — ég segi sennilega ekki háttvirtum því þar er ég einn sjálfur. Það er að finna á þskj. 667 og er nefndarálit um þetta frumvarp sem við ræðum hér um skyldutryggingu lífeyrisréttinda.

Ég ætla ekki að lesa nefndarálitið frá orði til orðs en mér fannst skorta á að menn áttuðu sig á þeim vanda sem við er að glíma og fyndu á honum lausnir. Frumvarp ríkisstjórnarinnar gengur út á það að allir fái milljón á 10 mánuðum, sem eru u.þ.b. 63 þús. kr. á mánuði eftir skatt, og ég tel að það sé allsendis ófullnægjandi fyrir þá sem eru í virkilegum erfiðleikum jafnvel þótt bæði hjóna eða para fengju slíka upphæð, 600 þús. kr., þá eru þetta 1,2 millj. og vanskilin eru oft miklu stærri og myndarlegri en það.

Þegar ég fór að hugsa málið sá ég að í rauninni erum við annars vegar með fasta upphæð sem fólk skuldar og getur ekki borgað af vegna breytinga, hugsanlega vegna atvinnuleysis eða einhverra breytinga í kjölfar hrunsins. Það er sem sagt föst skuld öðrum megin og föst inneign hinum megin, sem er inneign í séreignarsjóði. Mér datt í hug að gera þetta með skuldajöfnun, með því að færa skuldabréf á milli þannig að vörsluaðili séreignarsparnaðarins, yfirleitt banki eða lífeyrissjóður, gæfi út skuldabréf sem skuldareigandinn, sá sem maðurinn skuldar, sem oftast er banki eða Íbúðalánasjóður, keypti. Það þarf líka að borga skatt og þá datt mér í hug að láta lífeyrissjóðinn gefa út skuldabréf til skattsins og þar með væru skatturinn og skuldin talin greidd. Þetta skuldabréf væri með nákvæmlega sömu kjörum og séreignarsparnaðurinn sem einstaklingurinn átti, fengi sömu ávöxtun ár eftir ár, og greitt yrði út með sömu gjalddögum og hann átti rétt á við 65 ára, 67 ára eða hvað aldur það nú er og þá fengju skatturinn og bankinn sitt greitt í peningum. Kosturinn við það er að skuldarinn mundi losna við skuld sína af húsinu og gæti haldið áfram án þess að missa heimili sitt, eins og oft vofir yfir.

Þessi hugmynd gengur í raun út á það að engir peningar fari á milli og kemur því ekki illa við lífeyrissjóðina eða vörsluaðila séreignarsparnaðar. Þeir borga ekki út eina einustu krónu og það yrði akkúrat engin breyting. Íbúðalánasjóður eða bankarnir, þar sem skuldin er greidd, fengju hins vegar skuldina uppgreidda, en hún er í mikilli hættu hjá þeim af því að maðurinn getur ekki borgað, hann er í vanskilum og hættan er sú að allt fari á uppboð og reka þurfi manninn út af heimilinu og yfirleitt tapa lánastofnanir á slíkum viðskiptum, þau eru ekki æskileg.

Eins og ég gat um áðan eiga ríkissjóður tekjuskatt og sveitarfélög útsvar í þessu, skuldabréfin skiptust væntanlega á milli þeirra, og fengju greitt eins og til stóð þegar maðurinn verður 67 ára þannig að þau tapa hvorki einu né neinu. Ég flyt breytingartillögu um þetta þar sem þetta er sett yfir í lagatexta og auk þess hef ég ákveðinn varnagla, sem mér finnst vanta í frumvarp ríkisstjórnarinnar eða meiri hlutans, að ef þessi aðgerð, sem felst í því að greiða út séreignarsparnaðinn, dugar ekki til þannig að sá sem skuldar verður engu að síður gjaldþrota þá er betra heima setið en af stað farið. Ég er með ákvæði um það að sá sem skuldar skuli fara í ákveðið mat — það kostar auðvitað en ég held að það sé vel þess virði að hann fari í ákveðið mat með fjármál sín — og ef sýnt þykir með töluverðum líkum að sú aðgerð að greiða út séreignarsparnaðinn nægi til að bjarga honum frá gjaldþroti þá sé farið út í aðgerðina, ella ekki. Það er engum greiði gerður með því að borga út séreignarsparnaðinn og svo fer skuldarinn á hausinn hvort sem er og hefur þá tapað séreignarsparnaðinum, sem gerist annars ekki því að séreignarsparnaðurinn er utan við gjaldþrotið, þannig að ég er líka með þetta ákvæði inni.

Svo ræðir nokkuð í nefndarálitinu um jafnræðisákvæði af því að menn töldu að vera þyrfti jafnræði á milli skuldara. Ekki er hægt að láta þá sem skulduðu fá séreignarsparnaðinn greiddan út en ég færi rök fyrir því að menn fái greiðslur mjög víða. T.d. fá þeir sem eru sextugir séreignarsparnaðinn greiddan út og engin málefnaleg rök eru fyrir því að maður sem er sextugur fái greitt út en ekki sá sem er 59 ára. Við erum t.d. líka með örorkulífeyrisbætur, niðurfellingu fasteignagjalda til þeirra sem eru tekjulágir og alls konar „ójafnræði“ vegna ýmiss konar aðstæðna. Mér finnst t.d. yfirvofandi missir heimilis vera alveg næg ástæða til að beita slíkum úrræðum.

Þessi tillaga var nokkuð mikið rædd í efnahags- og skattanefnd í morgun — mikið rædd er kannski ofsögum sagt því nefndin hafði stuttan tíma. Þetta er eitt þeirra mála sem ríkisstjórnin kemur með sem ég tel vera gott mál og vil gjarnan styðja og þess vegna lá ég yfir þessari lausn og vonast til að menn leiti að bestu mögulegri lausn á vandanum.

Eitt í þessu sambandi, frú forseti, svo ég lengi þetta örlítið, er að mjög erfitt virðist vera að fá upplýsingar um t.d. dreifingu séreignarsparnaðar, hve margir eiga yfir 6 millj. samanlagt, hve margir eiga yfir 8 millj. o.s.frv. af því að ekki má keyra þær upplýsingar. Ég held að Alþingi þurfi að skoða lög um persónuvernd í þessu skyni svo opnaður sé möguleiki á því að kanna svona upplýsingar. Það er mjög mikilvægt við vinnslu svona mála að hægt sé að keyra í gegn t.d. alla reikninga eftir kennitölu, safna saman hvað menn eiga og síðan finna dreifingaraðila og eyða gögnunum eftir það. Þá vita menn hvernig gögnin liggja. Þetta er sami vandinn og ég lenti í þegar ég var að hanna kerfi fyrir greiðsluþátttöku almennings í heilbrigðiskerfinu, en þá lenti ég í mjög miklum vandræðum með einmitt persónuvernd og það tafði málið þannig að það dó drottni sínum við stjórnarskiptin.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra en það hefur orðið að samkomulagi að ég dragi þessa tillögu til baka til 3. umræðu og hún verður þá væntanlega rædd í hv. efnahags- og skattanefnd á milli 2. og 3. umr.