136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:54]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að spyrja hæstv. forsætisráðherra að því í fullri vinsemd hvort flutningsmönnum frumvarpsins sé virkilega alvara með að stefnt sé að því að klára málið og samþykkja það á þessu þingi.

Ég vil í því sambandi vísa til þess sem Össur Skarphéðinsson, hæstv. utanríkisráðherra, sagði í ræðu á Alþingi 9. mars 2007, með leyfi forseta:

„Stjórnarskráin er grunnlög lýðveldisins og það er mikilvægt að um þau sé fjallað af mikilli ábyrgð og það sé reynt að ná sem breiðastri og víðtækastri samstöðu um þau mál.“

Ég tek undir þessi orð Össur Skarphéðinssonar, hæstv. utanríkisráðherra.

Ég vil líka vísa til þess sem Ögmundur Jónasson, hæstv. heilbrigðisráðherra, sagði í ræðu á Alþingi sama dag, 9. mars 2007, þar sem hann sagði, með leyfi forseta:

„Stjórnarskránni á ekki að breyta í þeim tilgangi að afla kjörfylgis í aðdraganda kosninga en framganga Framsóknarflokksins, sérstaklega í þessu máli, ber öll þess merki.“

Nú er skammur tími til kosninga. Boðað hefur verið að þing verði rofið 12. mars, eftir sex daga, og það er eðlilegt að við fáum upplýst hvort ríkisstjórnin leggur þetta mál fram til kynningar eða hvort henni sé virkilega alvara með að stjórnarskrá lýðveldisins, grundvallarlögum þjóðar okkar, verði breytt á örfáum dögum um atriði sem skipta verulegu máli. Þá á ég við annars vegar ákvæði um þjóðaratkvæði og hins vegar reglur um með hvaða hætti stjórnarskránni verði breytt.