136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:58]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna því að hæstv. forsætisráðherra áttar sig á því að knappur tími sé til stefnu. Þá er líka mikilvægt að hæstv. forsætisráðherra hafi það í huga að við erum að fjalla um stjórnarskrá lýðveldisins og mjög mikilvægt er að vel sé vandað til verka þegar henni er breytt. Það breytir engu í því sambandi hvort þing fari heim þann 12. mars eða í byrjun apríl, tíminn er engu að síður mjög skammur, sérstaklega þegar litið er til þeirra hagsmuna sem í húfi eru sem eru grundvallarlög íslenska lýðveldisins.

Mig langar til að spyrja hæstv. forsætisráðherra annarrar spurningar. Í 2. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að hægt sé að breyta stjórnarskránni með þeim hætti að 25 af hundraði allra kjósenda á kjörskrá greiði breytingu atkvæði sitt. Þetta þýðir með öðrum orðum að einungis 25% þjóðarinnar geta knúið fram breytingu á stjórnarskránni, (Forseti hringir.) á mannréttindaákvæðum, á þjóðskipulagi okkar. Telur hæstv. forsætisráðherra að það sé eðlilegt og í samræmi við þær lýðræðishefðir sem við byggjum á (Forseti hringir.) að 25% þjóðarinnar geti gert breytingar á stjórnarskrá Íslands?